28.08.2008 - 00:25 | bb.is
„Einstakur starfsandi og skólastarfið í góðu horfi“
„Starfið leggst alveg prýðilega í mig", segir Bogi Ragnarsson, nýr skólastjóri Gunnskólans á Þingeyri. „Starfsandinn er einstakur og maður finnur það strax að manni muni líða vel hér. Skólastarfið er í góðu horfi og því ekki annað að sjá en starfsemin muni ganga vel í vetur." Bogi tekur við af Ellerti Erni Erlingssyni sem sinnt hefur skólastjórastöðunni frá því í júlí 2003. Bogi hefur töluverða reynslu af kennslu, hefur kennt í grunnskólum í Kópavogi auk Fjölbrautaskóla Suðurlands og Háskóla Íslands. Hann er frá Reykjavík og er ættaður að austan en fyrir ættfræðiþyrsta má geta þess að hann getur rakið ættir sínar vestur.
„Amma mín bjó fyrstu þrettán ár ævi sinnar á Vestfjörðum, skammt frá Hólmavík en í kjölfar þess að foreldrar hennar lentu í snjóflóði flutti hún austur." Grunnskólinn á Þingeyri var settur á mánudag og að sögn Boga var mjög góð mæting foreldra með börnum sínum. „Í fljótu bragði séð sýndist mér allir vera samstíga og hlakka til að takast á við veturinn."