Einn góður úr Suðurfjarðahreppi
Friðrik Ólafsson á Bíldudal var bróðir Björns Ólafssonar, bónda í Dufansdal, og vel hagmæltur eins og hann. Friðrik var skipstjóri á rækjubát.
Frikki kom eitt sinn æðandi inn í Landsbankann á Bíldudal. Þá var þar bankastjóri Brynjólfur Þór Brynjólfsson, nú bankastjóri á Ísafirði. Frikki vildi ræða við Brynka. Brynki bað hann bíða smástund því að hann var að ljúka við að vélrita skuldabréf. Frikki hlustaði ekkert á það og hélt áfram að rekja erindi sín. Brynki skipaði þá Frikka að þegja og setjast niður svo að hann þyrfti ekki að henda honum út. Frikki snerist á hæli, vék sér að gjaldkeranum og sagði:
Mig bráðvantar viðtal við Binna,
en Binni er, eins og ég segi,
helvítis rokkur og hendir mér út,
nema haldi ég kjafti og þegi.