A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
04.09.2016 - 21:16 | Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið

Einn góður úr Bolungarvík: - Þegar Svavar varð klumsa

Grunnskólinn í Bolungarvík.
Grunnskólinn í Bolungarvík.

Þegar Svavar Gestsson var menntamálaráðherra var hann sem oftar á yfirreið ásamt Gerði Óskarsdóttur aðstoðarmanni sínum og öðru föruneyti. Þau heimsóttu skóla á landsbyggðinni, skoðuðu þá og ræddu við skólanefndir, skólastjóra og kennara og komu meðal annars til Bolungarvíkur. Þá var í smíðum nýbyggingin við Grunnskóla Bolungarvíkur, sem tekin var í notkun litlu síðar.

    Á þessum tíma var skólastjóri í Bolungarvík Gunnar Ragnarsson heimspekingur, frá Hrafnabjörgum í Arnarfirði, sem á fyrri tíð hafði kennt dönsku um stundarsakir við Menntaskólann í Reykjavík. Gunnar var ekki þekktur fyrir að vera mjög lágróma og gaf oft vel í, einkum í kennslustundum. Veitti þar stundum ekki af til að fá áheyrn og dugði jafnvel ekki til.

    Nú stendur menntamálaráðherrann ásamt föruneyti andspænis Gunnari skólastjóra og rómar af landsþekktri mælsku hversu gríðarlega öll aðstaða muni batna með tilkomu nýbyggingarinnar. Um leið kíkir hann úr þröngri kennarastofunni, þar sem þau voru, inn í þrönga kennslutækjakompuna við hliðina og segir:

    Það hefur vakið athygli mína á þessum kynnisferðum okkar, hversu lítið hefur verið hugsað fyrir aðstöðu fyrir kennara og kennslugögn í hinum eldri skólahúsum hérlendis.

    Það er ekkert skrítið, segir Gunnar, og gefur síðan í rétt eins og hann sé að reyna að yfirgnæfa sjöunda bekk í dönskutíma:

    Þá var ekki allt þetta andskotans glingur í kringum kennarana. Þá notuðu kennarar ekki önnur kennslutæki en töfluna, krítina og kjaftinn á sér. Og gafst vel.

    Ekki ræddi menntamálaráðherra frekar um kennslugögn eða nýja kennsluhætti í þessari heimsókn í Grunnskólann í Bolungarvík. Reyndar eru ekki kunnug mörg önnur dæmi þess, að Svavar Gestsson hafi orðið klumsa.

 

    (Úr sagnabanka Vestfirska forlagsins)

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31