Einn góður úr Árneshreppi á Ströndum - Passar alveg
Þegar Kjartan Ólafsson var frambjóðandi og síðar þingmaður Alþýðubandalagsins á Vestfjörðum, hélt hann vel utan um flokksfélaga sína og fylgdist með vexti þeirra og viðgangi.
Ferðalög Alþýðubandalagsins voru rómuð undir leiðsögn Kjartans og tóku fleiri þátt í þeim en flokksmenn einir. Þegar halla tók á níunda áratuginn á síðustu öld, var farið norður í Árneshrepp. Á heimleiðinni var komið við á Klúku í Bjarnarfirði. Þar bjó Pálmi Sigurðsson og þegar rennt var í hlað, mátti sjá barnavagn upp við íbúðarhúsið. Kjartan steig út úr rútunni og gekk rakleiðis að barnavagninum.
Þegar hann hafði litið barnið augum sem í honum var, sagði hann stundarhátt;
,,Jú, þetta passar alveg, hann er rauðhærður.”
Þar með var það ákveðið, að Pálmi ætti barnið, en hann var þá nýlega kominn í sambúð og vel rauðhærður.
(Finnb. Hermannsson 99 vestf. þjóðs. 4. hefti)