Einn góður frá Ísafirði á sauðburðinum - Speak English?
Oddur heitinn Oddsson bakari á Ísafirði, var greinagóður maður og þeim eiginleikum búinn, að hafa stórt hjarta og var gæðamaður á allan hátt. Oddur bakari var lengi í lögregluliði Ísafjarðar og þar komu manngæði hans best í ljós þegar þurfti að jafna ágreining milli manna og vasast í málum drukkinna ólátabelgja. Leysti hann jafnan það sem upp kom með góðu, ef það á annað borð var hægt eðli málsins vegna.
Þegar þessi saga gerðist, á sjöunda áratug tuttugustu aldar, voru margir rólegheita gæðamenn í lögreglunni, Jóhann Kárason, Torfi Einarsson, Kristján Kristjánsson og fleiri góðir karlar.
Eitt sinn sem oftar lágu margir enskir togarar í höfninni á Ísafirði í óveðri og tjallarnir voru ráfandi hálffullir um bæinn og létu ófriðlega. Enginn í lögregluliðinu var mellufær í ensku, nema helst Oddur, sem var rétt byrjaður að sækja enskutíma, kannski tvo tíma, til frú Herthu Leósson, sem kenndi tungumál heima hjá sér á Seljalandsveginum. Um kvöldmat þessa dags hringdi Gunnlaugur á Eyrarveri, sem var matsala og sjoppa þar sem Hamraborg er nú, en það var við gömlu bæjarbryggjuna sem nú er horfin. Bað Gulli um aðstoð vegna margra tjalla sem voru með ólæti og trufluðu kostgangara, sem voru margir hjá honum. Þeir mættu allir á staðinn, Oddur, Kútti og Jói Kára, á gamla hvíta Landroverjeppanum sem þá var þeirra Svarta María.
Oddur var hugaður, hafði orð fyrir þeim félögum og stormaði í tjallahópinn, en þeir bera mikla virðingu fyrir öllum einkennisbúningum. Oddur kallaði upp:
Do you speak English?
Yes, svöruðu tjallarnir.
Komið þá with me á stöðina, sagði Oddur valdsmannslega og gaf þeim merki um að elta sig. Landroverinn var fyrir utan, opinn að aftan og ætluðu allir tjallarnir að ryðjast inn í hann í einu.
O, no, no, ekki svona. One inn í einu, sagði þá Oddur lögreglumaður.