Eigum við að taka upp embætti hreppstjóra aftur?
Margir sáu eftir hreppstjórunum eftir að þau embætti voru lögð niður. Og nú hefur sú hugmynd komist á kreik hjá nokkrum spekingum að rétt væri að endurvekja hreppstjórana. En til hvers? Ja, það gæti til dæmis verið einn liður í að hefja almennilega sókn í byggðamálunum segja þeir. Hinn almenni borgari í krummaskuðunum og sveitunum gæti leitað til þeirra með ýmis mál. Þeir gætu sparað löggunni sporin. Leiðbeint erlendum ferðamönnum með ýmsa hluti og gáð hvort einhverjir fullir kallar séu undir stýri! Svona mætti lengi telja.
Áður fyrr önnuðust hreppstjórarnir ýmis störf í hreppunum. Og voru til staðar. Mest var þetta sjálfboðavinna. Þeir voru fulltrúar sýslumanns. Og lögreglustjórar, eða sériffar á erlendu máli, hver í sínum hrepp. Þeir höfðu aldrei stjörnu í barmi svo vitað sé, eins og tíðkast í kabojmyndunum, en hreppstjórahúfu áttu þeir sumir. En ekki nærri allir. Við munum fjalla nánar um hreppstjóramálin síðar hér á Þingeyrarvefnum.