A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
17.12.2014 - 06:42 | Morgunblaðið,BIB

Ég kann ekkert annað

Jenna Jensdóttir frá Núpi í Dýrafirði. Jenna segir Öddubækurnar eiga sér stoð í raunveruleikanum. Fyrsta bókin kom út árið 1946, síðan þá hafa bækurnar verið endurútgefnar margoft.
Jenna Jensdóttir frá Núpi í Dýrafirði. Jenna segir Öddubækurnar eiga sér stoð í raunveruleikanum. Fyrsta bókin kom út árið 1946, síðan þá hafa bækurnar verið endurútgefnar margoft.
« 1 af 3 »

• 70 ár frá útkomu fyrstu bókar Jennu og Hreiðars

 

Jenna Jensdóttir frá Núpi í Dýrafirði

Hún segist ekki kunna neitt annað en að skrifa og segja frá. Kærleikur hefur verið eitt leiðarljósa Jennu Jensdóttur, rithöfundar og kennara, í 96 ár en hún er einna þekktust fyrir barna- og unglingabækur sem hún skrifaði m.a. í samstarfi við Hreiðar Stefánsson, eiginmann sinn, sem er látinn. Um þessar mundir eru 70 ár síðan fyrsta bók þeirra, Skógarævintýri Kalla litla, kom út, en Öddubækurnar eru líklega þeirra vinsælustu bækur.

Jenna segist ekki hafa átt neitt val um hvort hún varð rithöfundur. Hún segist snemma hafa orðið hrifnæm, grét yfir örlögum blóma og ánamaðka, hlustaði á fuglana og talaði við þá. Hún gekk um „full af sögum,“ eins og hún segir sjálf og fengu aðrir fyrst að njóta þeirra þegar hún tók þátt í og vann sögusamkeppni útvarpsins. „Ég skrifaði sögu sem hét Útvarpskennsla veldur misskilningi. Ég var 17 ára, fékk 25 krónur í verðlaun og var með nefið upp í loft lengi vel á eftir. Mér fannst ég hafa sigrað heiminn.“

Jenna og Hreiðar kynntust í Kennaraskólanum og ráku saman Smábarnaskóla Jennu og Hreiðars fyrir 5 og 6 ára börn á Akureyri frá 1942 til 1963. Þar fengu þau hugmyndir að mörgum bóka sinna. „Við vorum yfirleitt með um 90 börn á ári og mörg barnanna hafa ennþá samband við okkur,“ segir Jenna.

 

Adda endurútgefin enn á ný

Þessa dagana gefur Ugla útgáfa út sjöundu og síðustu Öddubókina, Adda trúlofast, en bækurnar komu fyrst út árið 1946 og hafa oft verið gefnar út síðan þá. Þar er fjallað um Öddu frá því hún er fjögurra ára og fram á fullorðinsár. Í upphafi fyrstu bókarinnar er Adda umkomulaus, í umsjá gamallar konu, sem veitir henni litla hlýju. Adda slasast, leggst inn á sjúkrahús og læknirinn sem annast hana tekur hana að sér. Jenna segir sögu Öddu eiga sér stoð í raunveruleikanum. „Ég þekkti barnlaus hjón, þar sem maðurinn var læknir og þau tóku að sér barn sem líklega var barn bandarísks hermanns. Móðirin flutti úr landi og skildi barnið eftir hjá gamalli konu.“

Jenna segist hafa lagt mikla vinnu í persónusköpun í bókunum, ekki síst föður Öddu sem leggi áherslu á að hún geri sér grein fyrir orsökum og afleiðingum gerða sinna. „Hann veit ekki hverra manna hún er og hann er að reyna að átta sig á því hvaða eðlisþáttum hún býr yfir. Ef maður les bækurnar vel þá sést þetta.“

 

Við erum öll að puða

Jenna hefur fengið fjölmargar viðurkenningar fyrir ritstörf sín bæði hér á landi og á alþjóðavísu. Hún segist þakklát fyrir þann sóma, en segist að öðru leyti lítið gefin fyrir vegtyllur. „Ég skrifa vegna þess að ég kann ekkert annað. Við erum öll að puða, hvert á sínu sviði. Öll störf eru mikilvæg. Nú er ég 96 ára og sé að það sem aldur og ævi hefur kennt mér er traust, kærleikur og heilindi.“

 

Skrifaði Öddubækurnar ein

Jenna og Hreiðar Stefánsson. Þessa höfundarmerkingu kannast margir við, en á þennan hátt voru 27 barna- og unglingabækur þeirra Jennu og Hreiðars höfundarmerktar. Raunin er þó sú að allur gangur var á því hvort bækurnar voru eftir þau bæði. „Ég skrifaði Öddubækurnar ein, en Hreiðar skrifaði t.d. Sumar í sveit einn. Við ákváðum að hafa þetta svona vegna þess að við rákum skólann saman.“

Jenna segist ekki hafa lesið mikið af þeim barna- og unglingabókum sem hafa komið út undanfarin ár. „En ég get nefnt eina; Ármann Jakobsson, gamall nemandi minn úr unglingadeild Langholtsskóla, kom til mín um daginn ásamt Sverri tvíburabróður sínum. Þeir gáfu mér nýju barnabókina hans Ármanns, Síðasta galdrameistarann. Hann áritaði hana svona: Til Jennu, fyrirmyndar allra í leik og starfi. Það þótti mér vænt um.“

 

Morgunblaðið 17. desember 2014

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31