A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
28.06.2015 - 21:20 | Hallgrímur Sveinsson

Eftirminnilegt „show“ á Dynjanda

Göngumannafoss.
Göngumannafoss.
« 1 af 8 »

35 ár frá sögulegu kjöri Vigdísar:

Það var eftirminnilegur dagur 3. ágúst 1980 er Vigdís kom til Hrafnseyrar. Þá var hátíð á staðnum. Sú fjömennasta í sögu hans. Hinn nýkjörni forseti bauð af sér góðan þokka. Hlaðin persónutöfrum. Hún var mætt á staðinn til að vinna sitt fyrsta verk í embætti: Opna nýreist Safn Jóns Sigurðssonar. Í fylgd með henni voru allir helstu ráðamenn þjóðarinnar og höfðu komið með varðskipi frá Reykjavík. Veður var einstaklega gott þennan dag í Arnarfirði og rammaði það inn eftirminnilegan dag sem maður gleymir ekki.

   Nú var það að morgni þessa fagra dags að ákveðið var að fara með Vigdísi forseta inn að Dynjanda og sýna henni náttúruperlu Vestfjarða. Fylktu menn liði þangað inneftir á bílum. Var síðan gengið sem leið lá upp að stærsta fossinum, Dynjanda, sem sumir kalla enn Fjallfoss. Á leiðinni þangað uppeftir eru sjö aðrir fossar. Einn þeirra kallast Göngumannafoss eða Göngufoss. Er hann í miðjunni á fossasymfóníunni þarna innfrá.

    Einn af fylgdarsveinum Vigdísar var Ágúst Böðvarsson frá Hrafnseyri, forstjóri Landmælinga Íslands. Hann var þá gjaldkeri Hrafnseyrarnefndar. Var hann klæddur í rykfrakka ystan fata og með flottan hatt á höfði. Nú gerist það er komið var að Göngumannafossi að Ágúst bókstaflega hverfur úr fylgdarliðinu og vissi eiginlega enginn hvað af honum varð. Það var eins og jörðin hefði gleypt hann. En viti menn. Eftir nokkrar mínútur birtist Ágúst og nú hinumegin við fossinn. Hafði hann gengið þurrum fótum bak við fossinn. Vissi hann að slíkt var hægt við vissar kringumstæður, sbr. nafnið. Þetta „show“ eða sýning Arnfirðingsins var algjörlega óvænt og vakti mikla athygli ferðlanganna. Ekki síst var hinn nýkjörni forseti lukkuleg með þetta atriði, enda sjálf leikhúsmanneskja. Fékk Ágúst að launum mikið klapp fyrir atriði sitt. 

Hallgrímur Sveinsson.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31