Eftirherman og orginalinn í Iðnó í kvöld
„Síðustu mánuðir hafa verið mikið ævintýri. Við félagarnir höfum farið um allt land og hvarvetna fengið fullan sal af fólki og góðar móttökur. Gjarnan myndast mikil stemning,“ segir Guðni.
Skemmtilegar sögur
Um þessar mundir eru 40 ár síðan Jóhannes Kristjánsson kom fyrst fram á sviði til að skemmta. „Íslendingum finnst gaman að segja sögur og við Guðni komum báðir úr slíku umhverfi. Dagskrá okkar er í grunninn sögustund; mest hermi ég eftir þjóðfrægum mönnum sem fylla salinn af hlátri og skemmtan. Og skemmtilegar sögur spretta alls staðar fram,“ segir Jóhannes.
Vigdís er væntanleg
Guðni segir það vera hápunkt að komast á fjalirnar í Iðnó, þar sem þeir félagar skemmta 12. og 22. nóvember og 7. og 18. desember.
„Iðnó er Mekka leiklistarinnar og þar hafa verið færðar á svið margar sýningar sem hafa endurspeglað samfélag hvers tíma. Iðnó er frægasta leikhús okkar Íslendinga; sjálf höllin, enda bjóðum við drottningunni, Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi leikhússtjóra og forseta Íslands. Hún er væntanleg 22. nóvember,“ segir Guðni sem á sínum yngri árum tók þátt í uppfærslu á leiksýningum á Suðurlandi, m.a. Gullna hliðinu og Nýársnóttinni. „Leiklistin var mikill skóli þar sem ég hristi af mér feimni og lærði að standa á sviði. Sá skóli reyndist mér vel í stjórnmálunum,“ segir Guðni.
Morgunblaðið.