10.03.2015 - 07:00 | bb.is
Efast um framtíð fiskvinnslu á Þingeyri
Gunnhildur Björk Elíasdóttir, stjórnarmaður í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og bæjarfulltrúi Í-listans í Ísafjarðarbæ, efast um framtíð fiskvinnslu á Þingeyri þegar hún er ekki í höndum heimamanna. Stjórn Byggðastofnunar hefur samþykkt að ganga til samninga við fyrirtækið Íslenskt sjávarfang ehf. í Kópavogi um nýtingu á aflaheimildum Byggðastofnunar á Þingeyri. „Auðvitað er maður feginn því að það er kannski að sjá fyrir endann á þessari óvissu í bili. Ég hef svo sem ákveðnar efasemdir um framtíðina í þessum málum þegar það er fyrirtæki sem hefur heimilisfestu annars staðar. Og mér finnst voðalega erfitt að hugsa til þess að kannski endurtaki bara sömu hlutirnir sig á einhverra ára fresti,“ sagði Gunnhildur í samtali við fréttastofu RÚV.
Vísir hf hættir fiskvinnslu á Þingeyri í þessum mánuði og framkvæmdastjóri Íslensks sjávarfangs segir stefnt sé að því að kaupa eignir Vísis á staðnum og hefja þar vinnslu á fiski. Haft er eftir Gunnhildi að þrjár til fjórar fjölskyldur hafi ákveðið að flytja með Vísi til Grindavíkur. „Mismunandi stórar fjölskyldur, en allt í allt held ég að þetta séu 12-15 manns, börn og fullorðnir. Og þetta er einmitt akkúrat fólkið sem við þurfum á að halda til að byggðin okkar vaxi og dafni.“
Vísir hf hættir fiskvinnslu á Þingeyri í þessum mánuði og framkvæmdastjóri Íslensks sjávarfangs segir stefnt sé að því að kaupa eignir Vísis á staðnum og hefja þar vinnslu á fiski. Haft er eftir Gunnhildi að þrjár til fjórar fjölskyldur hafi ákveðið að flytja með Vísi til Grindavíkur. „Mismunandi stórar fjölskyldur, en allt í allt held ég að þetta séu 12-15 manns, börn og fullorðnir. Og þetta er einmitt akkúrat fólkið sem við þurfum á að halda til að byggðin okkar vaxi og dafni.“