A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
23.05.2015 - 06:43 | Morgunblaðið,BIB

Edinborgarhúsið á Ísafirði

Edinborgarhúsið á Ísafirði.
Edinborgarhúsið á Ísafirði.
« 1 af 3 »

Í sumar verður þar sögusýning um Baskavígin í Slunkaríki. Spánverjavígin voru á 16. öld. Ari sýslumaður í Ögri lét út ganga tilskipun um að Spánverjar væru réttdræpir. Það er ekki svo langt síðan sú tilskipun var numin formlega úr gildi. Þó að auðvitað hefði hún verið að engu gerð með nýrri lagasetningum fyrir löngu.

 

Edinborgarhúsið á Ísafirði er menningarsetur sem ferðafólk hefur áhuga á. Þetta er gamalt hús í jaðri þyrpingar gamalla timburhúsa á Eyrinni. Matthildur Jónu- og Helgadóttir frá Alviðru í Dýrafirði er rekstrar- og við- burðastjóri Edinborgarhússins.

„Edinborgarhúsið var byggt 1907. Það var Edinborgarverslun í Reykjavík sem reisti þetta stóra timburhús fyrir verslunar eftir teikningu Dýrfirðingsins Rögnvaldar Á. Ólafssonar. Ýmiskonar rekstur hefur verið í þessu húsi í áranna rás. Árið 2007 var Edinborgarhúsið opnað eftir gagngerar við- gerðir. Það voru einstaklingar og fyrirtæki sem keyptu húsið sem þá var í mikilli niðurníðslu. Viðgerðirnar voru styrktar af húsafriðunarnefnd, Ísafjarðarbæ og fleirum. Markmiðið var að gera þetta gamla og sögufræga hús að menningarhúsi Ísafjarðar.“


Er fjölbreytt starf í húsinu?


„Já, í Edinborgarhúsinu fer fram fjölbreytileg starfsemi. Þar er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, ferðaskrifstofa, veitingastaður og síðast en ekki síst er þar staðið fyrir ýmiskonar uppákomum og menningartengdum viðburðum. Í húsinu eru þrír salir misstórir sem leigðir eru fyrir margskonar samkomur. Á sumrin er mikið um að vera í Edinborgarhúsinu. Þá koma til Ísafjarðar mörg skemmtiferðaskip, í sumar eru sextíu slík væntanleg. Þá fyllist bærinn af fólki sem vill sjá og kynnast staðnum sem best. Edinborgarhúsið er þar á blaði. Gjarnan eru í húsinu ýmiskonar sýningar. Í sumar verður þar sögusýning um Baskavígin í Slunkaríki. Spánverjavígin voru á 16. öld. Ari sýslumaður í Ögri lét út ganga tilskipun um að Spánverjar væru réttdræpir. Það er ekki svo langt síðan sú tilskipun var numin formlega úr gildi. Þó að auðvitað hefði hún verið að engu gerð með nýrri lagasetningum fyrir löngu.

Fólk þarf líka að fá að hlæja


Á veturna starfar listaskóli í Edinborgarhúsinu sem auk venjubundinnar kennslu stendur fyrir ýmiskonar námskeiðum. Þetta er því mikilvægt hús, á sumrin fyrir ferðamenn og á veturna fyrir bæjarbúa sjálfa. Þar má nefna bókmenntakynninguna Opin bók sem, ókeypis, í kringum páska er kynning á barnabókum í húsinu og svo er viðburður sem nefndur er; Vestan vindar. Þá koma fyrirlesarar, stundum rithöfundar af vestfirsku kyni. Í sumar ætlar Friðrika Benónýsdóttir að koma og tala um Þorpið í íslenskum skáldsögum, einkum á Vestfjörðum. Það er skemmtilegt að geta boðið upp á vandaðar bókmenntadagskrár. Fólk þarf líka að fá að hlæja, Laddi kemur á sjómannadaginn og verður með sprell, tónleikar eru líka í húsinu af ýmsu tagi. Í sumar kemur K-tríóið sem fékk þrenn tónlistarverðlaun fyrir plötu sem heitir Tólf vindstig.

Einnig kemur fram í Edinborgarhúsinu tónlistarfólk af svæðinu. Allt er þetta tilbreyting og skemmtun fyrir ferðafólk sem bæjarbúa. Við fáum styrki til starfsins frá Menningarráði Vestfjarða. Það kostar að halda þessu starfi uppi og ekki má mikið út af bera. Það væri gott að koma þessu starfi inn á fjárlög. Það myndi muna miklu, þó að upphæðin væri ekki há. Ég hef skilað inn umsókn um rekstrarstyrk fyrir húsið í Uppbyggingarsjóð. Vonandi verður litið jákvætt á þá starfsemi sem er okkur svo nauð- synleg, hér fyrir vestan.“

Hvað um hátíðahöld í bænum?


„Þekktust er tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður, hún er haldin árlega um páskana. Þá er mikið um ferðafólk hér í bænum og allir gisti- og veitingastaðir fjölsóttir. Edinborgarhúsið er að dragast inn í þau hátíðahöld. Þess má geta að Sigurður Flosason kemur í sumar, hann ætlar að minnast þess með tónleikum að Billy Holliday hefði orðið hundrað ára þetta ár. Stundum er svo eitthvað um að vera á vegum aðila sem leigja salina, allskyns fundir og samkomur. Þess má geta að ferðafólk hefur mikinn áhuga á gömlu timburhúsabyggðinni á Ísafirði. Í Neðstakaupstað er held ég elsta húsaþyrping á landinu. Þau elstu frá 18. öld. Við höfum verið svo heppin að gömlu húsin okkar hafa ekki verið rifin heldur flest gerð upp, við erum líka með fallegan miðbæ og torg. Gömlu húsin eru orðin verðmæti í sjálfu sér. Edinborgarhúsið er í jaðri þessarar byggðar. Á veitingastaðnum horfir fólk yfir Pollinn og höfnina. Við Ísfirðingar erum að manna okkur upp í að setja upp söguskilti og fleira tengt ferðamennskunni, sem verður æ fyrirferðarmeiri, einkum á sumrin.“

Seljið þið handverk í Edinborgarhúsinu?

„Ekki er mikið um það. Þó alltaf eitthvað, til dæmis lopapeysur á veitingastaðnum. Handverk er raunar áhugamál mitt. Ég frá Alviðru í Dýrafirði, miðjubarn í hópi fimm systkina sem öll hafa áhuga á skapandi tarfi og handverki. Sjálf hef ég fengist við ýmislegt, saumað mér faldbúning og stundað silfursmíði og geri stórar myndir í mósaík. Hef meira að segja selt slíka gripi. Hugmyndirnar koma til mín í röðum, einkum þegar ég er að festa svefn, þá er um að gera að drífa sig fram úr og skrifa niður, annars gleymist allt,“ segir Matthildur, full af orku og nýjum hugmyndum fyrir sjálfa sig og Edinborgarhúsið, menningarhúsið sem er Ísfirðingum svo dýrmætt.

Morgunblaðið föstudagurinn 22. maí 2015.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31