Dýrfirsk ær skilaði þrem lömbum eftir útigöngu í vetur
Þegar Flateyringarnir Einar Guðbjartsson og Guðrún Pálsdóttir voru að vitja sumarbústaðar síns undir Hestfjalli innst í Önundarfirði síðastliðinn fimmtudag sáu þau þrjár kindur ofan við bústaðinn. Þótti þeim það óvenjulegt þar sem ekki var búið að hleypa fé út af neinum bæjum í grenndinni.
Einar sagði í samtali við Bændablaðið að hann hafi fyrst talið að um hrúta væri að ræða. En þar sem hann er alinn upp í Efri húsum í Önundarfirði og bjó síðan á Hesti, þá rann honum blóðið til skyldunnar að kanna þetta betur. Guðrún er ekki síður tengd sveitinni enda ólst hún upp á Ingjaldssandi til fermingaraldurs. „Kindurnar voru mjög styggar og fyrst hélt ég að þetta væru hrútar frá Hóli. Svo fór ég að velta þessu fyrir mér og kíkti aftur á kindurnar tveim tímum seinna, þá sá ég að þar var ein nýborin þrem lömbum,“ sagði Einar.
Tvær úr Dýrafirði og ein úr Álftafirði
Kom í ljós að féð hafði gengið úti í allan vetur. Var sú nýborna í eigu Karls Bjarnasonar í Neðri Hjarðardal í Dýrafirði, og með henni var lamb frá því í fyrra. Þriðja kindin reyndist svo vera í eigu Guðmundar Halldórssonar á Svarthamri við Álftafjörð.
Karl Bjarnason sagði í samtali við Bændablaðið að þarna væri um að ræða fé sem ekki hafi skilað sér af fjalli í haust. Ljóst er að frjósemin hefur ekki verið slæm þeirri nýbornu og hraust er hún að lifa af harðan vestfirskan vetur og skila af sér þrem lömbum.
Hefur slegið sér upp með hrúti frá Svarthamri
„Líklega hefur þessi nýborna verið frammi á Korpudalnum í haust og vetur og komist í kynni við hrút.“
Sagðist Karl vita að Guðmund á Svarthamri hafi vantað tvo hrúta sem ekki skiluðu sér af fjalli eftir síðasta sumar, en þeirra hefur samt ekki orðið vart.
„Það er ekkert ósennilegt að þeir hafi verið að þvælast þarna í Önundarfirðinum.“
Karl sagðist annars í samtali við Bændablaðið að hann væri með um 370 til 380 fjár. Sú nýborna væri fædd 2007 og hafi alltaf skilað þrem lömbum nema í fyrsta burði. Nærri 30 ær voru bornar í Neðri-Hjarðardal fyrir helgina og hefur sauðburður gengið vel. Þrátt fyrir að lofthitinn hafi ekki verið mikill það sem af er vori sagðist Karl hafa féð í hólfi utan dyra þar sem ærnar hafi borið. Sagði hann engin vanhöld hafa verið á lömbum.
Ekkert sældarlíf að ganga úti í Korpudal í vetur
Það hefur ekki verið neitt sældarlíf hjá fénu að ganga úti í Korpudal í vetur. Sagði Karl þar enn vera allt á kafi í snjó og mun meiri snjór væri í Öndunarfirði en í Dýrafirði. Eitthvað hafi féð samt náð að éta, því það var bærilega haldið. Einar Guðbjartsson tók undir það og taldi líklegt að féð hafi hafst við í Korpudalnum norðan við Hestfjallið, en sunnan við fjallið er Hestdalur. Það hafi þó örugglega verið erfitt líf sökum snjóa og óveðurs. Sagði hann að þótt snjór væri að mestu horfinn af Flateri þá næði sólin ekki að bræða neitt að gagni vegna kulda.
Bændablaðið 13. maí 2015