Dýrfirðingurinn - Þorvaldur Jón Matthíasson - Minning
Foreldrar hans voru Matthías Þorvaldsson frá Svalvogum í Dýrafirði, f. 1908, d. 1946, og Gíslína Gestsdóttir frá Skálará í Keldudal, Dýrafirði, f. 1897, d. 1980. Þorvaldur var yngstur þriggja systkina. Systur hans eru 1) Jóhanna, f. 31. maí 1931, og 2) Sólborg, f. 17. sept. 1932.
Þann 7. september 1956 kvæntist Þorvaldur eftirlifandi eiginkonu sinni, Svövu Sumarrós Ásgeirsdóttur, f. 26. júlí 1934. Saman eignuðust þau tvö börn. Fyrir átti Svava dóttur, Ásgerði Þórisdóttur, f. 21. mars 1953, sem Þorvaldur gekk í föður stað. Hennar maki er Kristinn Sigmundsson, f. 1. mars 1951. Þeirra synir eru a) Gunnar, f. 1979. Sonur hans er Mikael Bjarni, f. 2000, og b) Jóhann, f. 1988. Börn Þorvaldar og Svövu eru 1) Esther, f. 6. desember 1955, maki Guðjón Kristleifsson, f. 7. maí 1953. Þeirra synir eru a) Bjarki, f. 1978, kvæntur Valgerði Kristjánsdóttur. Börn þeirra eru Óliver, f. 2006, og Esther Emilía, f. 2010. b) Þorvaldur, f. 1984, kvæntur Sigríði Tinnu Heimisdóttur og c) Kristleifur, f. 1988, kvæntur Berglind Svönu Blomsterberg. 2) Matthías Gísli, f. 15. júní 1966, maki Ljósbrá Baldursdóttir, f. 24. júní 1971. Börn þeirra eru a) Hrafnhildur Ýr, f. 1991, b) Eysteinn Orri, f. 1997, c) Svava Sól, f. 2000, d) Viktor Axel, f. 2007 og e) Eva Fanney, f. 2009. Fyrir átti Matthías dóttur, Söndru, f. 1989. Móðir hennar er Hlín Guðjónsdóttir.
Þorvaldur lauk landsprófi frá Héraðsskólanum að Núpi, Dýrafirði. Þaðan lá leið hans til Reykjavíkur, þar sem hann útskrifaðist frá Samvinnuskólanum árið 1952. Að námi loknu hóf hann störf hjá Heildverslun Einars Ágústssonar, þar sem hann starfaði í tvo áratugi. Þá stofnuðu Þorvaldur og Svava Skjólborg, heildverslun, og ráku þau fyrirtækið með miklum sóma saman, fyrst á Miklubraut 15, síðan á Klapparstíg 38, og síðustu árin í Skútuvogi 12.
Áhugamál Þorvaldar tengdust ætíð fjölskyldunni, en auk þess hafði hann mikinn áhuga á hvers kyns íþróttum, ekki síst hugaríþróttum. Á árum áður spilaði hann brids og vann til fjölda verðlauna á þeim vettvangi. Skák var honum einnig hugleikin alla tíð.
Útför Þorvaldar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 5. febrúar 2015, og hefst athöfnin kl. 13.
Minningarorð Baldurs Óskarssonar
Leiðir okkar Þorvaldar lágu fyrst saman þegar Matthías sonur hans tók að gera hosur sínar grænar fyrir Ljósbrá dóttur minni. Þessi samdráttur leiddi fljótt til þess að þau fóru að búa saman og festu síðan ráð sitt. Ég man vel þegar ég hitti Þorvald fyrst. Hann var glæsilegur, hár vexti, fríður sýnum, svipmikill og sópaði að honum hvar sem hann fór. Við nánari kynni kom í ljós að hann var mannkostamaður, greindur vel, glaðvær, brosmildur og hvers manns hugljúfi.
Þorvaldur var fæddur og uppalinn í Dýrafirði og mótaðist mjög af fögru umhverfi og því dugnaðarfólki sem hann ólst upp með. Hann fór í Samvinnuskólann þá er hann var enn í Sambandshúsinu en þar réð Hriflu-Jónas ríkjum. Sóttist Þorvaldi vel námið. Að því loknu hóf hann störf við heildsölur í Reykjavík. Störf sín rækti hann af trúmennsku og dugnaði, var ráðdeildarmaður og farnaðist vel.
Það var mikil gæfa í lífi Þorvaldar þegar hann gekk að eiga konu sína Svövu Sumarrós Ásgeirsdóttur, glæsilega unga konu sem varð lífsförunautur hans og kjölfesta. Það voru margar fagrar stundirnar í samlífi þeirra enda mjög samstillt í öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur. Árið 1972 stofnuðu þau heildverslunina Skjólborg og ráku hana saman af mikilli fyrirhyggju allan sinn starfsaldur. Það voru ófáar ferðirnar sem þau fóru til útlanda að kaupa inn fatnað og vefnaðarvöru. Svava var mjög smekkvís í innkaupum, enda seldust vörur Skjólborgar vel um land allt. Þorvaldur sá um bókhald og fjármál og var farsæll og séður í fjárfestingum. Samstarf þeirra Svövu var til mikillar fyrirmyndar.
Þorvaldur var fjölhæfur maður og áhugamál hans mörg. Þau Svava spiluðu bridge af ástríðu og höfðu af því yndi. Þorvaldur var áhugamaður um íþróttir og fylgdist af ákafa með enska boltanum. Útivist og ferðalög stunduðu þau af krafti. En Þorvaldur var þó fyrst og fremst ábyrgur fjölskyldufaðir. Hvergi leið honum betur en í faðmi fjölskyldunnar og tóku þau hjónin þátt í uppeldi og þroskaferli barnabarna sinna af óvenjulegri ræktarsemi. Bestu ánægjustundir þeirra voru í leik, gáska og gleði með barnaskaranum. Þorvaldur hafði oft orð á því við mig hvað hann væri mikill gæfumaður að hafa eignast öll þessi heilbrigðu og efnilegu afabörn. Í þeim væri fólginn fjársjóður hans og hamingja.
Ljóðið sem Þorvaldur skilur eftir handa okkur er hin fagra minning sem við geymum um ókomin ár um mannvininn og höfðingjann sem var okkur svo kær og við elskuðum heitt. Hann er nú horfinn úr þessu lífi. Við sem lifum í þeirri vissu að Guð sé til vitum að hann lifir þótt hann deyi.
Baldur Óskarsson.
Morgunblaðið fimmtudaguinn 5. febrúar 2015