Dýrfirðingar eru sorrý, sárir og svekktir
Sú andsamfélagslega aðgerð Banka allra landsmanna að loka útibúi bankans á Þingeyri hefur vakið hörð viðbrögð í Dýrafirði.
Í dag komu flestir sem vettlingi geta valdið og áttu heimangegnt í firðinum saman við Landsbankann á Þingeyri. Var þar höfð stutt sameiginleg stund síðustu mínútur Landsbankans á staðnum. Kveikt var á kertum. Jónína Símonardóttir kennari hélt stutta tölu og sagði meðal annars að nú væru Dýrfirðingar sorrý, sárir og svekktir. Einn fundarmanna sagði að þetta væri punkturinn yfir i-ið. Tveggja mínútna þögn var svo í lokin.
Mikill þungi er í fólki vegna þessarar aðgerðar Landsbankans. Hingað og ekki lengra segja viðskipamenn og eigendur Landsbankans í Dýrafirði. Nánar verður fjallað um þetta mál síðar hér á Þingeyrarvefnum.
H. S. tók meðf. ljósmyndir á samkomunni.