10.06.2015 - 10:51 | bb.is,BIB
Dýrafjarðargöngum frestað í samgönguáætlun
Ný samgönguáætlun til næstu fjögurra ára var nýlega lögð fram á Alþingi, einu ári seinna en upphaflega átti að leggja hana fram. Áætlunin nær til áranna 2015-2018. Í áætluninni er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hefjist ekki fyrr en árið 2017. Það er ári síðar en gert var ráð fyrir í áætlun sem áður var samþykkt á árum síðustu ríkisstjórnar. Allar áætlanir liggja fyrir um Dýrarfjarðargöng, umhverfismat hefur þegar farið fram og ekkert eftir nema bjóða göngin út. Það ætti að gerast á næsta ári, ef framkvæmdinni verður ekki frestað enn frekar.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti bókun á síðasta fundi þar sem tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 var til umsagnar. Í bókun bæjarstjórnar segir: „Bæjarstjórn vill enn fremur benda á að hvert ár sem líður án þess að vinna hefjist við Dýrafjarðargöng er verulegt tjón fyrir efnahagssvæðið á Vestfjörðum og tefur aðra uppbyggingu á svæðinu, eins og t.d. bætt raforkuöryggi, uppbyggingu í ferðaþjónustu og fiskeldi og samstarf fyrirtækja. Því er nauðsynlegt að þeim framkvæmdum verði flýtt um eitt ár frá því sem fram kemur í tillögunni.“
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti bókun á síðasta fundi þar sem tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 var til umsagnar. Í bókun bæjarstjórnar segir: „Bæjarstjórn vill enn fremur benda á að hvert ár sem líður án þess að vinna hefjist við Dýrafjarðargöng er verulegt tjón fyrir efnahagssvæðið á Vestfjörðum og tefur aðra uppbyggingu á svæðinu, eins og t.d. bætt raforkuöryggi, uppbyggingu í ferðaþjónustu og fiskeldi og samstarf fyrirtækja. Því er nauðsynlegt að þeim framkvæmdum verði flýtt um eitt ár frá því sem fram kemur í tillögunni.“