A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
Dýrafjörður
Dýrafjörður
Dýrafjarðargöng hafa verið slegin út úr fjögurra ára samgönguáætlun. „Þetta eru mikil vonbrigði fyrir Vestfirðinga," segir Kristinn H. Gunnarsson, talsmaður baráttuhópsins Áfram vestur sem berst fyrir bættum samgöngum frá Bjarkalundi að Þingeyri. Það eina sem minnst er á varðandi Dýrafjarðargöng í tillögu að samgönguáætlun til ársins 2012, sem samgönguráðherra lagði fram á Alþingi í gær, er að miðað verði við að áfram verði unnið að undirbúningi við Vaðlaheiðargöng, Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng. Handbært fé til þessa liðar verður 12.091 milljónir króna árið 2010, 6.925 milljónir króna árið 2011 og 6.418 milljónir króna árið 2012. „Þegar litið er til einstakra fjárveitinga hins vegar er ekki gert ráð fyrir fjármagni til ganganna og þær þúsund milljónir króna sem eyrnamerktar voru til jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar í núgildandi vegáætlun horfnar og ekki nýttar til annarra framkvæmda á Vestfjörðum," segir Kristinn.

 

Hins vegar er gert ráð fyrir því að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hefjist 2011 og er úthlutað til þess 220 milljóna króna framlagi 2011 og 1.174 milljónum króna 2012.

 

„Sömu rök eru fyrir Norðfjarðargöngum og Dýrafjarðargöngum, að þau tengi saman byggðalög innan fjórðungsins. Dýrafjarðargöngin hafa það þó fram yfir Norðfjarðargöngin að þau stytta akstursleiðina frá norðursvæði Vestfjarða til Reykjavíkur um 50 km. Það myndi spara peninga bæði fyrir vegfarandann og þjóðarbúið. Það er því afar súrt í broti að Dýrafjarðargöngin virðast vera dottin út af borðinu, en ekki að þeim hafi eingöngu verið frestað," segir Kristinn.

 

Kristinn segist hafa reynt að fá skýringar á því af hverju ekki sé skilgreint hvað verði úr með Dýrafjarðargöng í samgönguáætluninni en hafði engin svör fengið þegar blaðamaður hafði samband í dag. „Mér virðist að allar meiriháttar framkvæmdir sem eru í dag inni í samgönguáætlun séu það áfram í nýju tillögunni nema Dýrafjarðargöngin. Ég hef engar skýringar fengið á þessu og þetta er súrt í broti þegar það er haft í huga að þessi kafli frá Bjarkalundi að Þingeyri er eini kaflinn á stofnvegakerfi landsins sem enn er gamall og ekki fær allt árið í kring."

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31