28.06.2012 - 17:02 | JÓH
Dýrafjarðardagar eru að hefjast!
Víða má sjá hús og garða á Þingeyri skreytt með fallega grænum og bleikum lit og ljóst að Dýrafjarðardagar eru að hefjast. Það er líflegt um að litast enda margir gestir komnir í bæinn og veðrið er eins og best verður á kosið. Í kvöld geta hátíðargestir meðal annars kíkt á undanúrslit EM á Veitingahorninu, fengið sér belgíska vöfflu í Simbahöllinni eða mætt á grillhlaðborð á Hótel Sandafelli. Þá verður Zumba danskennsla í Félagsheimilinu og spurningakeppnin Veistu hvað?? fer fram á Veitingahorninu strax að dansi loknum. Miða á hátíðina er hægt að nálgast í Upplýsingamiðstöðinni við Hafnarstræti og í sölutjaldi sem verður staðsett fyrir framan Íþróttamiðstöðina um helgina. Einnig verður hægt að kaupa miða á Víkingasvæðinu á laugardagskvöldið. Nánari upplýsingar um dagskrárviðburði er að finna hér, og á Facebook síðu Dýrafjarðardaga.