Dýrafjarðardagar ekki dýrir
Með miðanum fæst armband sem gestir hátíðarinnar bera á sér á meðan hátíðinni stendur. Veitir þetta aðgang að alls konar afþreyingu eins og bátsferðum, hestaferðum og hoppikastala. Helst veitir þetta þó aðgang að grillveislu hátíðarinnar sem er einkar glæsileg, en þeir sem hafa armband geta borðað eins mikið af dýrindis grillkjöti og meðlæti og í sig er hægt að láta en mikið er lagt upp úr því að hafa veisluna sem ríkulegasta. Í fyrra var grillaður matur ofan í 500 til 600 manns en búist er við allt að 700 grillgestum í ár. Gestir þurfa ekki að hafa fyrir því að koma með mat með sér, allt er innifalið og sjá kokkar um að grilla ofan í gesti hátíðarinnar, en glæsileg skemmtidagskrá er í boði á meðan veislunni stendur.
Frétt bb.is hefur vakið sterk viðbrögð aðstandenda hátíðarinnar og íbúa Dýrafjarðar. Að sögn Ernu Höskuldsdóttur, eins skipuleggjanda hátíðarinnar, er nú unnið að því að leiðrétta þann misskilning sem birtist í dagskrá hátíðarinnar þannig að það fari ekki á milli mála hvernig staðið sé að málum. Blaðið harmar að hafa ýtt undir þennan misskilning en bendir jafnframt á að þegar blaðamaður sóttist eftir skýringum frá aðstandendum hátíðarinnar í gær, var staðfest gjaldskylda fyrir stjörnumerkta viðburði. Er það von blaðsins að sem flestir sjái sér fært að mæta í Dýrafjörðinn um helgina til að njóta hinnar rómuðu gestrisni Dýrfirðinga.