Drög að reglugerð um þjóðfánann til umsagnar
Drög að reglugerð um notkun þjóðfánans er nú til umsagnar á vef innanríkisráðuneytisins. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um reglugerðardrögin til og með 5. desember næstkomandi. Umsagnir skal senda á netfangið postur@irr.is.
Tilgangurinn með setningu reglugerðarinnar er að skýra nánar ákvæði laga um þjóðfánann sem sett voru 1944 en þeim var breytt á Alþingi með lögum nr. 28/2016 síðastliðið vor og heimila lögin nú notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu. Þannig er nú heimilt að nota fánann í merki eða á söluvarning og umbúðir sé vara eða starfsemi íslensk og fánanum ekki gerð óvirðing. Reglugerðin hefur að geyma nánari útlistun á því hvað telst íslensk vara eða starfsemi.
Lagabreytingin síðastliðið vor gerir síðan ráð fyrir að Neytendastofa fari með eftirlit með notkun almenna þjóðfánans. Við málsmeðferð hennar er varðar úrræði og viðurlög vegna brota skal fara eftir ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.