Doktor: - Torfi K. Stefánsson
Aðalleiðbeinandi Torfa var dr. Einar Sigurbjörnsson, prófessor emeritus, en í doktorsnefnd voru auk hans Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup.
Í ritgerðinni fjallar Torfi um þau guðræknirit sem gefin voru út hér á landi á árunum 1570-1800.
Með guðrækniritum er átt við þær trúarbókmenntir sem hafa einkum að geyma bænir, sálma og andleg kvæði auk postilla, það eru bókmenntir sem nýttust í heimilisguðrækninni. Tímabilið er kennt við lærdómsöld frekar en árnýöld til þess að leggja áherslu á samfelluna í íslenskri trúarhefð allt frá miðöldum og fram á daga upplýsingar.
Fjallað er um öll rit sem teljast til þessarar tegundar trúarbókmennta og gefin voru út á tímabilinu. Sett eru fram rök fyrir því að þessar guðræknibókmenntir hafi mótað trúararfleifð Íslendinga langt fram á 19. öld og geri það enn að ákveðnu marki.
Einnig er sýnt fram á að þessar bókmenntir hafi verið undir sterkum áhrifum frá kaþólskri dulhyggju miðalda.
Þjóðin tók þessum bókmenntum vel eins og sést á þeim fjölda handrita sem enn er til og einkennast af sömu guðræknihefð. Það sýnir m.a. að munur á lærðri menningu og þjóðlegri var ekki eins mikill á þessum árum og haldið hefur verið fram.
Auk þess sýnir þetta að fullyrðingar sumra fræðimanna um félagslegt taumhald kirkjunnar á þjóðinni á þessu tímabili eru hæpnar. Þessum bókmenntum var ekki þröngvað upp á almenning heldur sóttist hann eftir þeim.
Þar sem flest íslensku guðrækniritin eru þýðingar á erlendum ritum, eða mótast mjög af þeim, hafa erlendar rannsóknir verið nýttar. Rit þetta er þannig samtal við alþjóðleg fræðasamfélög, einkum í Norður-Evrópu, og íslensk trúarhefð sett í samhengi við hina evrópsku.
Torfi K. Stefánsson Hjaltalín er fæddur árið 1953. Hann lauk kandídatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1980 og licentiat-prófi í trúfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð 1987. Hann er sjálfstætt starfandi fræðimaður.
Morgunblaðð 16. september 2016.