12.09.2011 - 23:59 | JÓH
Díónýsía á Þingeyri
Dagana 14.- 24. september verða hópur íslenskra og erlendra listamanna á vegum Díónýsíu á Þingeyri. Díónýsía er óformleg, listamannarekin vinnustofudvöl sem haldin er árlega í boði valins þorps á landsbyggðinni. Vinnustofan er opin öllum listgreinum, og eru listamennirnir sem taka þátt í ár að vinna á mjög ólíkum sviðum. Það sem gerir Díónýsíu vinnustofudvölina sérstaka er að hún er óstaðbundin og lögð er mikil áhersla á að gestalistamenn séu opnir fyrir að kynnast heimamönnum, þekkingu þeirra og hæfni, og að vinna með þeim. Listamennirnir, sem eru sjö talsins, verða í Simbahöllinni næstkomandi miðvikudagskvöld kl. 20:00 og vilja hvetja sem flesta Dýrfirðinga að kíkja í kaffi. Þeir sem fást við hvers konar list, hönnun eða aðra skapandi hluti eru hvattir til að mæta í Simbahöllina og sýna hópnum vinnuna sína.