Chaplin og færibandaþrælarnir
Grandamenn Íslands. Nú er tækifærið!
3. grein
Komið er að því að benda Sjónvarpinu á að sína kvikmyndina Modern times eða Nútíminn eftir Charles Chaplin. Hún er að vísu þögul frá árinu 1936. Skiptir ekki máli. Þetta er klassík. Spásögn. Chaplin er færibandsþræll í stórri verksmiðju. Græðgin og mannfyrirlitningin sem hvarvetna ríkja koma honum alltaf á kaldan klaka líkt og munaðarlausri vinkonu hans (Paulette Goddard).
Spurt er: Hvar á að taka peningana til að hækka laun þeirra sem lepja dauðann úr skel?
- Með því að forgangsraða í þessu þjóðfélagi. Forgangsröðunin er kolvitlaus eins og er og hefur verið lengi. Nýtt verðmætamat þarf að koma til sögunnar.
- Lækka laun þeirra hæstlaunuðu og taka af þeim bitlingana þar sem það á við. Þeir verða fullsæmdir þrátt fyrir það og geta alltaf komið ár sinni fyrir borð.
- Minnka verður moksturinn úr ríkiskassanum. Byrja á forsetaembættinu. Fækka sendiráðum eða sameina.
- Allir vita að opinberir starfsmenn eru of margir hjá okkar fámennu þjóð. Fækka þeim.
- Fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtæki sem geta greitt eigendum sínum milljarða í arð geta vel séð af nokkrum krónum til að borga þrælunum slarkfær laun.
- Selja Hörpuna. Einkaaðilar munu reka hana með glæsibrag. Nokkrir milljarðar þar.
Svona mætti halda endalaust áfram.
Að þekkja sinn vitjunartíma
Stjórn HBGranda og aðrar slíkar: Notið nú tækifærið og laðið færibandaþrælana að ykkur. Nú er tækifærið Grandamenn Íslands! Forðið yfirvofandi verkföllum með nokkrum alvöru íspinnum. Þjóðarnauðsyn krefur. Rússneska byltingin hefði aldrei orðið ef aðallinn hefði haft vit á að gefa alþýðunni nokkra brauðhleifa. En þeir þekktu ekki sinn vitjunartíma. Því fór sem fór.
Hallgrímur Sveinsson