A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
28.07.2017 - 07:17 | Vestfirska forlagið,Stöð 2,Hallgrímur Sveinsson,Fréttablaðið,Björn Ingi Bjarnason

Byrjaðir að grafa Dýrafjarðargöng

Grafið fyrir jarðgangamunna í botni Arnarfjarðar. Fjær sést í Mjólkárvirkjun. Ljósm.: STÖÐ 2/EGILL AÐALSTEINSSON.
Grafið fyrir jarðgangamunna í botni Arnarfjarðar. Fjær sést í Mjólkárvirkjun. Ljósm.: STÖÐ 2/EGILL AÐALSTEINSSON.
« 1 af 2 »

Framkvæmdir eru hafnar við Dýrafjarðargöng en þau verða langstærsta verkið á samgönguáætlun næstu ára. Sýnt var frá upphafi framkvæmda í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi en byrjað er á munnanum Arnarfjarðarmegin. 

Starfsmenn Suðurverks og tékkneska verktakans Metrostav áætla að verða næstu þrjár vikur að grafa sig tuttugu metra niður í hlíðina áður en byrjað verður að sprengja inn í fjallið þessi 5,3 kílómetra göng. 

Eysteinn Jóhann Dofrason verkefnisstjóri segir verkið fara vel af stað. 

„Þetta lítur bara vel út. Við erum bara bjartsýnir, allavegana í byrjun. Það þýðir ekkert annað.“

Verktakarnir hafa sett upp vinnubúðir við Mjólkárvirkjun en þaðan eru um tveir kílómetrar að framkvæmdasvæðinu.  Við gangamunnann er verið að koma upp steypustöð, verkstæðisbyggingum og skrifstofum. 

„Við byrjuðum einhverjir fimm karlar hér fyrir mánuði. Þetta eru orðnir einhverjir tuttugu núna, frá báðum fyrirtækjum, og ætli þetta fari ekki í fjörutíu manns eftir hálfan mánuð og verði þannig meðan gangnamokstur er hérna megin,“ segir Eysteinn. 

Og Vestfirðingar gleðjast að sjá vinnuvélarnar komnar af stað, þeirra á meðal stöðvarstjórinn í Mjólká, Dýrfirðingurinn Steinar Jónasson.

„Þetta er langþráð og menn trúðu ekki sínum eigin augum þegar þeir voru byrjaðir í sumar, þó að það væri búið að skrifa undir. Þannig  að menn binda miklar vonir við að þetta verði mikil samgöngubót fyrir svæðið,“ segir Steinar. 

Áratugur vonbrigða virðist að baki en Steinar rifjar upp að göngin voru komin á dagskrá árið 2007. 

„Ég held að menn gleymi því bara. Nú er þetta komið í gang og menn taka því bara fagnandi.“  

Starfsmenn verktakanna mega búast við því að lokast inni í vetur þegar Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði verða ófærar. 

„Við lokumst örugglega að einhverju leyti hérna inni. En Landhelgisgæslan er búin að mæla út þyrlupall ef við lendum í vandræðum. Þá hljótum við að hafa það bara gott, ef við höfum eitthvað að borða og eitthvað af olíu til þess að eyða,” segir Eysteinn Dofrason. 

Áætlað er að göngin verði tilbúin eftir þrjú ár, fyrir haustið 2020. Verksamningur hljóðar upp á 8,7 milljarða króna.

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31