A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
10.01.2017 - 10:07 | Stjórnarráðið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason,Vestfirska forlagið

Byrjað að undirbúa aldarafmæli fullveldis

Hannes Hafstein við Stjórnarráðið í Reykjavík.
Hannes Hafstein við Stjórnarráðið í Reykjavík.
« 1 af 2 »

Á þingfundi 22. desember sl. var kosin sjö manna í nefnd til að undirbúa hátíðahöld árið 2018 um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands samkvæmt ályktun Alþingis frá 13. október 2016.

Í nefndinni eru:

Einar K. Guðfinnsson, Þórunn Sigurðardóttir, Einar Brynjólfsson, Þorsteinn Sæmundsson, Páll Rafnar Þorsteinsson, Guðlaug Kristjánsdóttir og Kristján Möller.

Nefndin hélt sinn fyrsta fund síðastliðinn föstudag og þar var Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi forseti Alþingis, kjörinn formaður nefndarinnar. Einar sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að í samþykkt Alþingis væri það kortlagt hvernig minnast skyldi afmælisins. Eitt það fyrsta sem nefndin mun gera er að auglýsa eftir framkvæmdastjóra til að halda utan um verkefnið. Að sögn Einars er nefndin byrjuð að leggja drög að auglýsingunni og mun nefndin hittast að nýju í næstu viku og þá vonast Einar til að þau mál verði þá farin að skýrast.

Tillagan kveður á um fjárveitingu í fjárlögum, samtals 200 milljónir króna, 100 milljónir fyrir árið 2017 og 100 milljónir fyrir 2018, til að mæta útgjöldum í tengslum við hátíðarhöldin.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni skal eftirfarandi gert á árinu 2018:

• Halda hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí 2018 en þann dag fyrir einni öld var samningum um fullveldi Íslands lokið.

• Ríkisstjórnin skal efna til hátíðahalda 1. desember 2018 þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi; jafnframt efni ríkisstjórnin af því tilefni til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit.

Undirbúningsnefndinni voru falin eftirfarandi verkefni:

• Láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og rit um inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti árið 1918.

• Stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar.

• Stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir Íslendinga séu jafnan öllum tiltækar, jafnt á bók sem stafrænu formi.

• Hvetja skóla til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918.

Þá ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi vorið 2017, verði gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns.

Alþingi ályktaði einnig að fela ríkisstjórninni að undirbúa ályktunartillögu um uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni.

Loks ályktaði Alþingi að fela Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum.

 

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31