Byggðastofnun: Íslenskt sjávarfang ehf hefur staðið við samninginn á Þingeyri
Samkvæmt athugun Byggðastofnunar hefur íslenskt sjávarfang staðið við samning fyrirtækisins við Byggðastofnun frá 24. apríl 2015. í samningum skuldbindur Íslenskt sjávarfang sig til þess að halda uppi á samningstímanum, sem eru þrjú fiskveiðiár, heilsársvinnu fyrir a.m.k. 30 manns og einnig að vinna úr a.m.k. 2000 þorskígildistonnum á ári í fiskvinnslu félagsins á þingeyri. Blaðið Vestfirðir sendi fyrirspurn til Byggðastofnunar um framkvæmd samningsins. Í svari Sigurðar Árnasonar f.h. Byggðastofnunar segir:
„Samkvæmt reglugerð 606/2015 hefur Byggðastofnun eftirlit með samkomulaginu. Samkvæmt upplýsingum sem við kölluðum eftir frá Íslensku Sjávarfangi voru á tímabilinu frá 24. apríl, þegar að fyrirtækið hóf vinnslu, til loka fiskveiðiársins þann 31. ágúst sl. unnin ríflega 525 þorskígildistonn af fiski. Full vinna var í 68 daga á þessu tímabili en frí var júnímánuði. Starfsmönnum fjölgaði á tímabilinu úr tæplega 20 í 39 í ágúst, þar 34 í fullu starfi.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Íslensku sjávarfangi hefur vinnsla í september og það sem af er október samanstaðið af þorski sem unninn hefur verið í ferskar afurðir og í léttsaltað og auk ufsa. Þegar vantað hefur hráefni hefur fyrirtækið miðlað hnakklausum flökum vestur þar sem þau hafa verið unnin í bita. Miðað við þessa lýsingu vinnslunnar er um fiskvinnslu að ræða sem uppfyllir kröfu reglugerðarinnar um vinnslu.“
Íslenskt sjávarfang ehf er fiskvinnslufyrirtæki í Kópavogi stofnað 2001 með um 100 starfsmenn þar. Fyrirtækið hefur unnið úr 7-9 þúsund tonnum af fiski á ári. Hráefnis er aflað með kaupum á fiskmörkuðum og með samningum við útgerðir. Meðal annars er togarinn Frosti HF frá Grenivík í föstum viðskiptum við Íslenskt sjávarfang. Í framhaldi af samkomulaginu við Byggðastofnun keypti fyrirtækið frystihúsið á Þingeyri af Vísi hf ásamt búnaði og hóf rekstur þar. Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóri segir að um töluverða fjárfestingu hafi verið að ræða og að eigendur Íslensks sjávarfangs ehf leggi mikið undir enda sé starfsemin á þingeyri hluti af rekstri fyrirtækisins alls. Allur reksturinn er á sömu kennitölu og því skiptir miklu máli að reksturinn á þingeyri gangi vel. Íslenskt sjávarfang ehf á engan kvóta en með samkomulaginu við Byggðastofnun fylgja samningar við Berg ehf í Vestmannaeyjum og SE ehf á Þingeyri auk 9 smábátaeigendur á þingeyri. Byggðakvótanum er dreift á útgerðirnar gegn kvótaframlagi frá þeim og með þeim hætti verður 400 tonna byggðakvóti að 2000 þorskí- gildistonnum til fiskvinnslunnar á Þingeyri. Af byggðakvótanum fær Bergur ehf 280 tonn og leggur til á móti jafnmikið af kvóta skipsins Bergs VE auk þess að selja Íslensku sjávarfangi 700 tonn til viðbótar. Egill Ís fær 50 tonn af byggðakvótanum og selur fiskvinnslunni á þingeyri 250 tonn til viðbótar. Smábátarnir fá 70 tonn af byggðakvótanum og þessar útgerðir leggja til jafnmikið á móti af eigin kvóta. Samtals tryggir samkomulagið 1.750 tonn af fiski til fiskvinnslunnar á Þingeyri. Því sem upp á vantar þau 2000 þorskígildistonn til þess að samkomulagið við Byggðastofnun sé uppfyllt verður íslenskt sjávarfang ehf að útvega og getur til dæmis gert það með því að kaupa á fiskmörkuðum eða miðla fiski frá öðrum viðskiptabátum fyrirtækisins.
Samkvæmt heimildum blaðsins er fiskverðið miðað við lágmarksverð Verðlagsstofu skiptaverðs fyrir byggðakvótann og framlag útgerða en annar samningsbundinn afli er tengdur markaðsverði.
Að sögn Hermanns Úlfarssonar, vinnslustjóra á Þingeyri hefur verið stöðug vinna og síðustu tvær vikur hefur verið unnið frá kl 6 á morgni til kl. 6 að kvöldi alla virka daga. Fiski er miðlað milli starfsstöðva fyrirtækisins í Kóðavogi og á Þingeyri og hefur það gengið að vonum. Framleiðslan er lausfrystur þorskur sem fer aðallega til Spánar og ýsa og ufsi. Hermann segir að stjórnendur þurfi daglega að taka ákvarðanir um vinnslu út frá stöðunni á erlendum mörkuðum á hverjum tíma og það kalli á miðlun hráefnis í báðar áttir.
Bæði Rúnar og Hannes lögðu áherslu á að á Þingeyri væri gott og þjálfað starfsfólk sem skipti miklu máli fyrir reksturinn. Gildi samningsins fyrir íslenskt sjávarfang ehf er ótvírætt að fyrirtækið fær tryggan aðgang að hráefni og að mestu leyti á verði undir fiskmarkaðsverði. Byggðakvótinn, sem er í raun ókeypis verðmæti , færir þannig fyrirtækinu fjárhagslegan ávinning. Hann er hins vegar skilyrtur því að um vinnslu verði að ræða á Þingeyri. Það virðist vera hagur fyrirtækisins að reksturinn á þingeyri standi undir sér og geti borgað með tímanum fjárfestinguna þar.