A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
Stuðningsmenn uppbyggingar í Ólafsdal með bros á vör við styttu af Torfa Bjarnasyni og Guðlaugu Zakaríasdóttur
Stuðningsmenn uppbyggingar í Ólafsdal með bros á vör við styttu af Torfa Bjarnasyni og Guðlaugu Zakaríasdóttur
« 1 af 5 »
Fyrsti búnaðarskóli landsins var starfandi í Ólafsdal í Gilsfirði á vegum Torfa Bjarnasonar frá 1880-1907. Síðustu ár hefur sjálfseignarstofnunin Ólafsdalsfélagið beitt sér fyrir endurreisn staðarins og uppbyggingu þeirra húsa sem þar standa. Nú hefur verið gert samkomulag um uppbyggingu og varðveislu staðarins á milli fjármálaráðuneytisins og Minjaverndar og Ólafsdalsfélagsins. Samkomulag um að Minjavernd taki að sér land og eignir ríkisins í Ólafsdal var undirritað í gær.

Í gær komu saman í Ólafsdal þeir Þröstur Ólafsson, formaður stjórnar Minjaverndar, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnaahagsráðherra og Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Ólafsdalsfélagsins ásamt fríðu föruneyti. Markmiðið með samkomulaginu er endurreisn bygginga og menningarlandslags á staðnum þar sem meðal annars er áformað að reka menningartengda ferðaþjónustu. Samkomulagið felur í sér að Minjavernd tekur að sér að endurbyggja gamla skólahúsið og önnur þau hús sem uppi standa enn að einhverju leyti svo og að endurgera þau hús sem áður stóðu þar og tengdust rekstri og starfrækslu skóla Torfa. Gerir félagið ráð fyrir að heildarkostnaður þess geti numið 400-500 m.kr.

Í skólanum, sem starfræktur var til ársins 1907, var vel á annað hundrað bændaefnum kennt flest það sem til framfara stefndi í búskaparháttum, en samhliða skólanum rak Guðlaug Zakaríasdóttir kona Torfa kvennaskóla þar að sumarlagi. Áhrif Ólafsdalsskólans á íslenskan landbúnað og menntun voru því umtalsverð. Á tímum skólans reis fjöldi bygginga í Ólafsdal, þar á meðal skólahúsið, sem enn stendur, en það var byggt árið 1896. Þá voru byggð smiðja, mjólkurhús og tóvinnuhús. Húsakostur í Ólafsdal fyrr á tíð Mynd/Þjóðminjasafnið


Í samkomulagi ríkissjóðs við Minjavernd, sem er hlutafélag í eigu ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og sjálfseignarstofnunarinnar Minja, felst að félagið endurreisir byggingar og hefur umsjón með menningarlandslagi á svæðinu, en ríkissjóður afsalar í þessu skyni 57,5 hektara landspildu til félagsins. Frá árinu 2007 hefur sjálfseignarstofnunin Ólafsdalsfélagið unnið að uppbyggingu staðarins, en það leitaði á síðasta ári til Minjaverndar um að ganga inn í verkefnið. Heimild ráðherra liggur fyrir í fjárlögum þessa árs. Með samkomulaginu er áfram tryggð frjáls för almennings um svæðið.

Ferðaþjónusta og sýning

Minjavernd horfir til þess að í húsunum og á svæðinu í heild verði rekin menningartengd ferðaþjónusta, en samhliða verði í þeim komið fyrir sýningu og upplýsingum um það skólastarf sem þarna var og áhrif þess á samfélag landsmanna á þeim tíma og þróun þess.


Við endurbyggingu og endurgerð húsa og mannvirkja verður þess kappkostað að þau haldi upprunalegum einkennum, en jafnframt horft til þess að byggingar nýtist sem best miðað við nútímakröfur. Auk þess sem ríkið afsalar fyrrnefndum lóðarréttindum og eignum til Minjaverndar verður gerður samningur við félagið um umsjón og verndun menningarlandslags í Ólafsdal. Sá samningur er til 50 ára og nær til 325 hektara lands sem afmarkast af 200 metra hæðarlínu í dalnum. 

Minjavernd mun jafnframt vinna að því að klæða land í Ólafsdal meiri gróðri en nú er af þeim tegundum sem heppilegar þykja.„Það er sérlega ánægjulegt að undirrita þetta samkomulag við Minjavernd, hér á þessum fallega stað sem á sér merka sögu. Meginmarkmið með rekstri Minjaverndar er að stuðla að varðveislu gamalla húsa hvarvetna á Íslandi og hefur félagið undanfarið staðið vel að endurreisn gamalla húsa víða um land og má þar nefna hús í miðbæ Reykjavíkur, Franska spítalann á Fáskrúðsfirði sem og ýmis hús í Flatey. Án efa verður endurreisn húsakosts í Ólafsdal mikil lyftistöng fyrir svæðið,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra við undirritunina og fram kemur í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31