A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
27.03.2017 - 07:08 | Vestfirska forlagið,ruv.is,Björn Ingi Bjarnason

Brýnar vegabætur á Vestfjörðum sitja á hakanum

Ásgeir Einarsson. Skjáskot  - Ruv.is
Ásgeir Einarsson. Skjáskot - Ruv.is

Gamall malarvegur um Gufudalssveit er kominn til ára sinna og ekki gerður fyrir flutningabíla, þetta segir starfsmaður Vegagerðarinnar. Flutningabílstjóri segir veginn lítið hafa breyst í 45 ár og er ekki bjartsýnn á breytingar.

Í umhverfismati Vegagerðarinnar fyrir nýrri veglínu um Gufudalssveit við norðanverðan Breiðafjörð eru teknar fyrir fimm leiðir. Vegagerðin leggur til ódýrustu leiðina sem er þó talin vera önnur þeirra sem valda hvað mestum umhverfisáhrifum og líkust þeirri veglínu sem Skipulagsstofnun hafnaði árið 2005. Álits Skipulagsstofnunar á umhverfismatinu er að vænta á næstu dögum.  Á meðan ný veglína hefur ekki verið samþykkt er vegurinn um Gufudalssveit sá sem aka þarf, og hann er sannarlega barn síns tíma.

 

„Hann er kominn til ára sinna og kannski engan veginn fyrir þau ökutæki sem eru í þungaflutningum,“ segir Sæmundur Kristjánsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Búðardal. „Það er fyrst og fremst burðurinn í veginum sem er vandamál, og hann holast mjög auðveldlega. Um leið og hann rignir byrjar vegurinn að holast. “

 

Fjallvegirnir um Ódrjúgsháls og Hjallaháls hafa reynst flutningabílum farartálmar en með auknum umsvifum í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum fara stórir flutningabílar allt að tíu sinnum á dag um veginn, allan ársins hring. Ásgeir Einarsson, flutningabílstjóri er að vonum óánægður með ástand vega á þessari leið.

 

„Við erum að mölva vagnana, skemma bílana, þú sérð hvernig þetta er, ekkert nema holur og drulla og þessir nýju bílar eins og við erum á þola þetta ekki, þeir eru ekki smíðaðir fyrir þetta. Það er náttúrlega gífurlegur kostnaður sem fylgir því að laga þetta,“ segir Ásgeir.

 

Tæplega 7000 manns hafa skrifað undir áskorun til ráðherra um að útvega fé til vegagerðarinnar og hefur ríkisstjórnin samþykkt að veita 200 milljónum til verkefnisins að því gefnu að Skipulagsstofnun samþykki umhverfismatið og framkvæmdaleyfi liggi fyrir. Ásgeir hefur ekið um veginn sem hann segir lítið hafa breyst í 45 ár og hann er ekki bjartsýnn á breytingar.

 

„Þriðji ættliðurinn hjá mér er að keyra þetta núna og það lítur út fyrir að það verði sá fjórði og þetta breytist ekki neitt.“


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31