A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
07.10.2016 - 07:59 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Bókakaffið á Selfossi er andleg orkustöð á flatlendinu

Hafliði Magnússon framan við Bókakaffið við Austurveg á Selfossi. Ljósm.: BIB
Hafliði Magnússon framan við Bókakaffið við Austurveg á Selfossi. Ljósm.: BIB
« 1 af 2 »

Þær eru margskonar lýsingarnar sem fólk hefur látið falla um Bókakaffið á Selfossi, en það reka þau og eiga heiðurshjónin Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld og Bjarni Harðarson, bóksali og rithöfundur. Sumir segja það besta bókakaffi í heimi, aðrir segja það vera andlega orkustöð á flatlendinu.

 

Bókakaffið lætur ekki mikið yfir sér en þar er afar mikla andlega næringu að finna sem og vöfflur, kökur og kaffi fyrir kroppinn. Þar er boðið upp á hina ýmsu menningarviðburði, sem eðli málsins samkvæmt eru oft tengdir bókaútgáfu, enda er bókaútgáfan Sæmundur til húsa á sama stað. Bókakaffið byrjaði fornbókasölu 2009 og nú eru um 24 þúsund titlar gamalla bóka á skrá í netbókabúð.

 

Bókakaffið fagnar tíu ára afmæli í dag, föstudag, og eru gestir velkomnir af því tilefni. „Á afmælisdaginn verður formlega settur á laggirnar bókaklúbbur sem heitir einfaldlega Sæmundur á sparifötunum og af því tilefni verður fólki boðið upp á þetta sögulega og menningarlega kex, Sæmund á sparifötunum, sem bragðast mjög bókmenntalega og sögulega þó að Kexverksmiðjan Esja sé ekki lengur við lýði. Einn höfundanna sem lesa hjá okkur á afmælinu þekkti Sæmund persónulega og mun aðeins segja frá honum,“ segir Bjarni og bætir við að slegið verði upp afmælisveislu frá kl. 15-18 í Bókakaffinu og klukkan 20 í kvöld sé menningardagskrá í boði Bókakaffisins og Uppbyggingarsjóðs Suðurlands.

 

„Í afmælisveislunni klukkan þrjú verður að sjálfsögðu afmæliskaffi í boði hússins. Auk þess mæta rithöfundar víðs vegar að og lesa upp, bóksalar bjóða upp kostagripi og sérstök afsláttarkjör verða á bæði nýjum og gömlum bókum. Rithöfundarnir sem mæta eru Ásdís Thoroddsen, Óskar Árni Óskarsson, Hallgrímur Helgason, Pjetur Hafstein Lárusson, Guðmundur Brynjólfsson, Halldóra Thoroddsen, Guðrún Eva Mínervudóttir og Hermann Stefánsson. Þá les Heiðrún Ólafsdóttir, rithöfundur og þýðandi, upp úr nýútkomnu verki grænlenska höfundarins Sørine Steenholdt.

 

Í kvöld er einnig dagskráin Ljóðfæri, en þar koma fram feðgarnir Þórarinn Eldjárn, ljóðskáld og rithöfundur, og Halldór Eldjárn, tónlistarmaður og tölvufræðingur. Þeir gramsa í ljóða- og hljóðasörpum sínum, spinna og tvinna, með hjálp ritvéla-, hljómborða og lyklaborða. Einnig koma við sögu segulbönd, hljóðgervlar, bækur, fetlar, blöð, hristur, burstar, snerill og blýantur.“

 

Allir eru velkomnir í afmælið og aðgangur er ókeypis.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31