A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
23.11.2016 - 20:04 | Vestfirska forlagið,Jóhanna G. Kristjánsdóttir,bb.is

Blekkingaleikur er ljótur leikur

Jóhanna Guðrún Kristjánsdóttir.
Jóhanna Guðrún Kristjánsdóttir.
Flateyringar hafa kallað eftir skýringum á skyndilegri ákvörðum bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að sameina undir einu þaki leikskólann og grunnskólann á Flateyri í því skyni að „styrkja“ skólastarfið í þorpinu. Frá bæjarstjóra barst fyrir nokkrum dögum minnisblað eða samantekt á kostum aðgerðarinnar og göllum undirrituð af Margréti Halldórsdóttur, sviðsstjóra Skóla- og tómstundasviðs og Gísla H. Halldórssyni, bæjarstjóra. Litið er svo á að hér sé um að ræða „rökstuðninginn“ sem bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar studdist við þegar atkvæði um tillöguna voru greidd. Sérstök ástæða er því til að skoða vel það sem fram kemur í samantekt sviðs- og bæjarstjóra. 

Minnisblaðið/samantektin er fimm blaðsíður að lengd. Í henni eru sjö millifyrirsagnir:

1. Flutningur leik- og grunnskóla á Flateyri undir sama þak.
2. Sameiginlegur skólastjóri 2012.
3. Umræður um sameiningu skólans í húsnæði.
4. Nemendafjöldi. 5. Húsnæði.
6. Dæmi um samrekstur leik- og grunnskóla.
7. Kostir og gallar þess að sameina leik- og grunnskóla á Flateyri. 


Við lestur minnisblaðsins kemur í ljós að í sex köflum af sjö er varla nokkuð að finna sem skýrt getur ákvörðun bæjarstjórnar, einhverjar upplýsingar sem gætu hafa vakið með þeim löngun til að styrkja skólastarf á Flateyri. Í minnisblaðinu er ekki er eitt einasta orð um nauðsyn þess að grípa til slíkrar „styrkingar“. Ekkert nefnt í þá áttina að á Flateyri sé skólastarf óviðunandi og þess vegna aðkallandi að stuðningur verði veittur. Það er helst í síðasta kaflanum þar sem fyrirsögnin er Kostir og gallar þess að sameina leik- og grunnskóla á Flateyri að staldrað verður við. Kaflinn stuttur og textinn afar knappur eða eingöngu það sem hér segir: 

„Hér verða dregnir saman kostir og gallar þess að sameina skólana undir eitt þak í Grunnskóla Önundarfjarðar. Ljóst er að samantektin verður ekki tæmandi.“ 

Síðan er birt tafla þar sem vinstra megin eru tilgreindir 18 kostir þess að flytja leikskólann úr Grænagarði í grunnskólann en hægra megin 9 gallar á þeirri sömu gjörð. 

Ætli það geti verið að kjörnir bæjarfulltrúar láti sér nægja að skoða fjölda kostanna sem settir eru fram í töflunni samanborðið við gallana sem upp eru taldir? Þeir eru jú að taka afstöðu til máls sem þeir ættu að vita að skiptir íbúa í bæjarfélaginu verulegu máli. Þeir hljóta að hafa skoðað hvað stendur í þessum tveimur dálkum. Þegar það er gert kemur strax í ljós hvers konar fúsk það er sem þarna er sett fram undir merkjum fagmennsku. Þetta er alls ekki það sem kallast „greining“ sem þó er fullyrt í tilkynningu frá sviðsstjóra til foreldra um flutninginn, en þar segir: „Kostir og gallar hafa verið greindir“. 

Ekki kemur fram á minnisblaðinu hvaðan þessi upptalning í „hugstormunarstíl“ er komin. Spurning er hvort „fagmaðurinn“ sviðsstjóri Skóla- og tómstundasviðs, Margét Halldórsdóttir, hafi unnið verkið ein og sér eða beri alla vega ábyrgð á því. Það að telja upp kosti í einum dálki og galla í öðrum án rökstuðnings eða skýringa er í besta falli vinnugagn sem gæti hugsanlega verið tekið til skoðunar í alvöru mati á óljósri stöðu, en er langt frá því að geta kallast greining. 

Það er erfitt til þess að hugsa að bæjarfulltrúar, sem nú hafa „einróma“ sannfærst um kosti þess að losa Ísafjarðarbæ við gjöfina frá Færeyjum í nafni styrkingar skólastarfs á Flateyri, haldi að þessi upptalning geti talist fagleg úttekt eða greining. Af þessum ástæðum er því miður freistandi að halda að þeir hafi haft önnur sjónarmið en að styrkja skólastarf á Flateyri í huga er þeir tóku ákvörðunina um að fórna Grænagarði – selja gjöfina frá Færeyingum. Ýmis dæmi eru jú til um að óvandaðir stjórnmálamenn „réttlæti“ óvinsælar ákvarðanir og hafi í því tilviki sem hér er til umfjöllunar kallað eftir faglegri (les: félags- uppeldis- og kennslufræðilegri) „samantekt“ um kosti og galla sameiningar til þess að skýla sér á bak við. Að nota orðin „styrking skólastarfs“ yfir eitthvað sem í rauninni er hagræðing í rekstri skóla/lækkun útgjalda/ samdráttur í þjónustu eða eitthvað í þá áttina er ekki aðeins ódrengileg framkoma við íbúa Flateyrar heldur býsna hættulegur blekkingaleikur. Til viðbótar við hina dæmalausu greiningu kosta og galla á minnisblaðinu koma líka fram í henni rangar upplýsingar um vilja foreldra og starfsmanna skólanna á Flateyri til breytinga af þessu tagi. Slík fölsun er grafalvarlegt mál. 

Eins og fram hefur komið voru taldir upp í töflunni 18 „kostir“ þess að sameina undir einu þaki leik- og grunnskólann á Flateyri til þess að styrkja skólastarfið. Í þessari grein verður plássins vegna aðeins einn „kostur“ tekinn sem dæmi, en væntanlega verða hinir skoðaðir síðar. 

Kostur:„Nemendur í litlum árgöngum einangrast síður félagslega“ 

Í alvöru greiningu væri slík fullyrðing skoðuð vandlega. Eðlilegar spurningar gætu til dæmis verið: Hvað er átt við? Hvaða árgangar leik-og grunnskóla eiga að styrkjast félagslega við þessa sameiningu? Getur sameining skólanna tveggja komið í veg fyrir slíka einangrun? Hvernig? Er þessi fullyrðing studd rökum? Styðst hún við niðurstöður félagslegra rannsókna? Getur hún talist gild? Stenst hún? Er um gagnrök að ræða? Hver eru þau? Hver hefur komist að þessari niðurstöðu? Er þetta reynsla þeirra sem vinna í skólunum á Flateyri? Eða álit þeirra? Hvaða áhrif hefur þetta (ef satt reynist) á sameiningu leik- og grunnskóla undir einu þaki á Flateyri nú? Hvernig getur flutningur styrkt börnin félagslega? Einangrast nemendurnir síður félagslega ef gripið er til ráðstöfunar á borð við þá að flytja tvö, að mörgu leyti ólík skólastig undir eitt þak? Er ekki hægt að bregðast við vandanum, ef hann er fyrir hendi, á annan hátt? 

Ef fullyrðing, eins og sú sem hér að framan var tekin úr minnisblaðinu væri til umfjöllunar í raunverulegri greiningu og væri talin röng eða er hæpin, væri hún ekki tekin gild og ekki notuð. Henni yrði hent út af lista yfir haldbær rök. Þá værum við að nálgast það sem fram fer í greiningarvinnu. Að telja eitthvað upp sem kost eða galla er allt annað eins og lesendur átta sig örugglega á. Mér gæti þótt eitthvað kostur sem öðrum þætti galli o.s.frv. 

Hér hefur verið vakin athygli á því að þótt fullyrt sé í minnisblaði undirrituðu af Margréti Halldórsdóttur, sviðsstjóra Skóla- og tómstundasviðs og Gísla H. Halldórssyni, bæjarstjóra, að dregnir hafi verið saman kostir og gallar þess að sameina skóla á Flateyri undir einu þaki þá er það alrangt. Í minnisblaðinu hefur ekkert verið „dregið saman“ og enginn tilraun verið gerð til að rökstyðja fullyrðingar hvorki í galladálkinum eða hinum sem tilgreinir kostina. 

Bæjarfulltrúar hafa verið blekktir hafi þeir í raun talið að minnisblaðið væri meira en pappírsins virði. Eðlilegt hefði verið að mynda rýnihóp hagsmunaaðila, þ.e. fulltrúa foreldra, skólafólks á Flateyri, hverfisráðs og bæjarfulltrúa til að fara yfir rök fyrir sameiningu/ekki sameiningu, ekki að taka einhliða órökstudda ákvörðun um jafn mikilvægt mál og hér er um að ræða. 

Jóhanna Kristjánsdóttir er búsett á Flateyri.
Hún er menntunarfræðingur (cand paed) og sérkennari og hefur m.a. unnið að mati á skólastarfi fyrir menntamálaráðuneytið. 


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31