Björn Ingi tekur yfir ÍNN
Pressan ehf., félag sem er í meirihlutaeigu Björns Inga Hrafnssonar frá Flateyri og viðskiptafélaga hans, hefur tilkynnt Fjölmiðlanefnd um yfirtöku á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Þetta kemur fram í erindi sem Ingvi Hrafn Jónsson, sjónvarpsstjóri og stofnandi ÍNN, hefur sent nefndinni og Vísir greinir frá.
Í erindinu segir Ingvi Hrafn: „„Ástæðan er fyrst og fremst sú að undirritaður er kominn á þann aldur að starfsþrek mitt er ekki jafn mikið og áður var og aukinheldur hefur reksturinn verið þungur undanfarið,“ og greinir í kjölfarið frá því að hann hafi átt í viðræðum við fyrirsvarsmenn Pressunnar um yfirtöku félagsins á rekstri ÍNN. „Eftir að félagið hafði verið í sölumeðferð varð úr að ég er nú að ganga til samninga við Björn Inga Hrafnsson, fjölmiðlamann og félag hans Pressuna ehf. um að yfirtaka rekstur ÍNN. Frumkvæðið að þeim viðræðum er frá mér komið og ég er mjög sáttur við væntanlega aðkomu hans til yfirtöku félagsins og tel það í góðum höndum hjá honum.“
Pressan ehf. hefur verið umsvifamikil á fjölmiðlamarkaði á undanförnum árum. Félagið keypti m.a. DV seint á árinu 2014 og rekur auk þess fjölda vefa og vikublaða. Pressan ehf. hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2015 en á árinu 2014 skilaði félagið hagnaði upp á 11,5 milljónir króna. Engar upplýsingar voru í ársreikningi félagsins um hverjar rekstrartekjur félagsins voru á árinu 2014. Uppistaðan í auknu veltufé frá rekstri virðist vera tilkomin vegna nýrra lána sem Pressan fékk á árinu 2014 og gerir það að verkum að handbært fé frá rekstri er 184 milljónir króna.