A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
30.11.2016 - 07:31 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Björgunarafrek við Straumneshlíð 30. nóvember 1916

Björgunarmiðstöð.  Skólinn á Látrum.
Björgunarmiðstöð. Skólinn á Látrum.
« 1 af 3 »
100 ár eru liðin síðan Goðafoss strandaði við Straumneshlíð í Aðalvík, Látramenn björguðu 58 manns.

Það var stórviðri með fannkomu og roki þegar Goðafoss strandaði á leið sinni til Akureyrar, um borð voru 58 manns, farþegar og áhöfn.

Engin leið var að senda upplýsingar um strandið þar sem fjarskiptabúnaður skipsins var laskaður.

Ólafur Sigurðsson fyrsti stýrimaður fékk háseta með sér til að freista þess að róa skipsbátnum meðfram bjarginu inn víkina til að ná landi á Látrum sem var 80-100 manna þorp innst í víkinni. Einn af farþegunum bauðst til að fara með því að hann hafði komið áður á þessar slóðir og gat leiðbeint hvert halda skyldi í veðurofsanum.

Eftir þriggja klukkustunda barning á móti rokinu, sem í góðu veðri hefði tekið 20-30 mínútur, náðu þeir landi í klettabás vestan við þorpið og gengu þaðan að vestustu húsunum á Látrum.

Það var barið að dyrum í Nesi og mamma mín tíu ára fór til dyra. Úti stóðu klakabrynjaðir þreyttir menn og sögðu frá strandinu.

Á Látrum voru tveir litlir vélbátar, fjögurra og fimm tonna, á kafi í snjó uppi á fjörukambinum og einhverjir sexæringar. Boð voru send á alla bæina með þessum válegu tíðindum og menn kallaðir til að moka upp bátana.

 

Björgun

Í birtingu næsta morgun fóru föðurafi minn, Bjarni Dósóþeusson, og móðurafi minn, Friðrik Magnússon, ásamt þriggja manna áhöfn á hvorum vélbáti út á strandstað þar sem Goðafoss var laskaður uppi í stórgrýti við hamravegginn. Á víkinni fyrir framan þorpið voru Sigurður Þorkelsson og Benedikt Þeofílusson hvor með sinn sexæring fullmannaðan tilbúnir til að taka við skipbrotsmönnunum úr vélbátunum til að flytja þá í land svo að vélbátarnir gætu strax farið til baka til að sækja fleira fólk. Það tók tæplega tvær klukkustundir hvora leið fyrir litlu bátana að sigla milli strandstaðar og Látra í stórviðrinu. Tíu manns komust í hvorn bát, en ágjöf var svo mikil að fólk varð að koma sér fyrir í lest og lúkar. Það þurfti kjarkmikla og færa skipstjóra og áhöfn til að sigla fjögurra og fimm tonna vélbátum í briminu og illviðrinu út að stóra skipsskrokknum og verjast því að þeir lentu utan í skipinu á meðan fólkið var látið síga um borð.

 

Móttaka á Látrum

Í öllum húsum voru konurnar að elda mat og hafa til sængurfatnað til að taka á móti sjóhröktu og hræddu fólki. Skólahúsið var notað sem miðstöð við að dreifa fólkinu á bæina og hýsa suma. Nærri má geta að matarbirgðir heimamanna hafa rýrnað og ekki hafa allir heimamenn sofið í rúmum sínum næstu nætur. Þennan dag voru 20 færustu sjómennirnir á Látrum í hættu við að berjast í stórsjó til að bjarga öllum úr Goðafossi heilum í land.

Þegar skipstjórinn á Goðafossi var kominn í land skrifaði hann bréf sem þurfti að komast til Ísafjarðar til að segja frá strandinu, því að enginn sími var á Látrum. Hann sneri sér til Friðriks afa míns og bað hann að sigla með bréfið til Ísafjarðar. Afi minn leit á hann alvarlegur í bragði og sagði: „Fyrst þú gast ekki siglt þínu stóra skipi fyrir Straumnes þá get ég ekki siglt mínum litla báti til Ísafjarðar í þessu veðri.“

Veðrinu slotaði næsta dag og þá fór Friðrik afi með bréfið til Ísafjarðar, en Bjarni afi fór á hinum vélbátnum nokkrar ferðir að Goðafossi til að sækja eitthvað af farangri fólksins og matvæli til viðbótar því sem heimamenn höfðu til að fæða allt fólkið.

Þegar fréttin barst til Ísafjarðar voru sendir bátar eftir fólkinu og öllu verðmætu úr skipinu.

 

Voru einhver björgunarlaun?

Enginn spurði Látramenn hversu miklu eldsneyti þeir hefðu eytt við að flytja fólkið í land og bæta við ferð til Ísafjarðar. Það spurði heldur enginn um hve mikil matföng hefðu farið til að fæða 58 manns, en vetrarforði Látramanna minnkaði að sjálfsögðu við þessa björgun. Björgunarlaun voru engin.

400 olíutunnur voru um borð í Goðafossi og voru Látramenn fengnir til að bjarga þessum tunnum eftir því sem veður leyfði og sem laun fyrir þá vinnu fengu heimamenn ½ tunnu á hvert heimili.

Eitthvað máttu heimamenn nýta úr brotnandi skipsflakinu og til gamans má geta þess að eitt fjósið á staðnum varð frægt fyrir fína hurð sem þar var og á stóð með gylltum stöfum: „Fyrsta farrými“.

 

Gleði ríkti á Látrum föstudaginn 1. desember 1916

Friður gleði og lukka ríkti í þessu litla þorpi á Látrum þegar allir voru komnir í land. Mönnum þótti það mikil guðsgjöf að svo vel tókst til með björgun fólksins úr hinu strandaða skipi.

Nánari frásögn af strandinu birtist í Morgunblaðinu 27. júní 1987 eftir föður minn, Guðmund R. Bjarnason.

Það er við hæfi að minnast þessa björgunarafreks nú þegar 100 ár eru liðin og rifja upp hvernig samhentir sjógarpar gátu með kjarki og dugnaði bjargað svo mörgu fólki við erfiðar aðstæður án þess að nokkur slasaðist og hvernig hægt var að taka á móti svo mörgum til aðhlynningar í þessu litla þorpi.

Látramenn eru nú sem fyrr glaðir, stoltir og þakklátir fyrir að allir komust heilir að landi eftir þann mikla hildarleik sem háður var 30. nóvember 1916, það var mikil guðsgjöf eins og Látramenn sögðu þá.

Eftir Matthildi Guðmundsdóttur

 

Höfundur er kennsluráðgjafi.

 

Morgunblaðið 30. nóvember 2016.


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31