16.07.2009 - 10:02 | bb.is
Bjóða 3000 krónur í Brekkugötu 13
Ísafjarðarbæ hefur borist kauptilboð í húseignina að Brekkugötu 13 á Þingeyri en væntanlegir kaupendur hafa hug á því að gera hana upp. Tilboðsfjárhæðin hljóðar upp á 3.000 krónur en samkvæmt tilboðinu hafa aðilarnir kynnt sér húsnæðið vel og vandlega. Það er fúið á nokkrum stöðum, grunnurinn siginn og þak lélegt. Ætlunin er að gera húsið upp sem mest í upprunalegri mynd. Segjast tilboðsgjafar, sem eru búsettir í Reykjavík, að þeim er kunnug saga hússins og mun fullt samráð vera haft við Húsafriðunarnefnd um hvernig að framkvæmdum verði staðið. Væntanlegir kaupendur eiga ættir sínar að rekja til Dýrafjarðar og hafa þeir hug á að rækta betur frændgarð sinn þar og dvelja á Þingeyri sem oftast. Ef af kaupunum verður skuldbinda aðilarnir sig til þess að vera búin að endurgera grunn, ytra yfirborð og þak fyrir 1. október 2010.
Bæjarráð frestaði ákvarðanatöku þar sem húsið hefur verið auglýst til sölu og frestur til að skila inn kauptilboðum er til 15. júlí. Húsið var auglýst til sölu af Ísafjarðarbæ fyrir stuttu ásamt Vallargötu 1 á Þingeyri en einnig hefur borist tilboð í það húsnæði.