A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
31.07.2016 - 06:51 | Vestfirska forlagið,Bjarni Guðmundsson

Bjarni Guðmundsson.... skrifar dálítinn langhund í tilefni komandi dags:

Ólafur Ragnar Grímsson sem púki á Þingeyrarbryggju. Ljósm.: VIgfús Sigurgeirsson.
Ólafur Ragnar Grímsson sem púki á Þingeyrarbryggju. Ljósm.: VIgfús Sigurgeirsson.
« 1 af 2 »

Hann bjó hjá ömmu sinni og afa uppá Bala. Við hittumst fyrst í bíói á Þingeyri, var það "Síðasti bærinn í dalnum"? Sátum saman á fremsta bekk. Jafnaldra. Fám dögum seinna snupraði amma hans móður mína fyrir að hafa smitað hann af rauðum hundum. Það man ég ekki lengur; man hins vegar munnlega kennslu hans í marhnútsveiðum á Þingeyrarbryggju, hann hélt sig sjaldan til hlés í strákahópnum, rauðbirkinn, þéttur og píreygður.

Varð innanbúðar í KD fermingarsumarið. Bar sig sem hefði hann verið þar í áratugi, skammaði íhaldið og brúkaði stórum meiri munn en Einsi í Laufási - flottasti afgreiðslumaður sem ég hef enn kynnst ...

Síðan liðu mörg ár án frekari kynna. Mörgum þótti birta í þjóðlífinu 1971. Mér líka. Ungir menn og sprækir bárust á földum 68-öldunnar. Eysteinn skildi þá, m.a. strákinn af Balanum. Ég vildi að fleiri, og þá þeir eldri hefðu hlustað betur á Eystein ...

Eftir ýmsar heljarslóðarorrustur rak sessunaut minn á trébekknum í Samkomuhúsinu á Þingeyri út á Bessastaði. Æsti marga. Alveg eins og strákahópinn við marhnútsveiðarnar á Þingeyri. Gerði mistök líka. Ekki hafa mín mistök orðið færri ...

Samt verð ég að segja að mér þótti skjól af honum þegar aðrir heyktust, Oft er gott að hafa engar skoðanir. Gera bara einsog hinir ...

Sjálfsagt ergi ég marga FB-vini mína með þessum skrifum um Ólaf Ragnar Grímsson, við upprifjun í huganum man ég færri sem mælt hafa forsetagerðum hans bót hér á veggjunum en hinum - Til þess hafa þeir að sjálfsögðu fullan rétt ... og ég er ekki í lækjaleit, nú frekar en endranær...

En þó ekki væri af öðru en því að ég hafi fyrir LXV árum smitað hann af rauðum hundum þarna á trébekknum í Samkomuhúsinu á Þingeyri finnst mér rétt að þakka honum fyrir vaktina og snöfurmannlega sinnu á vandasömu embætti - og að hann hefur oft vakið innra með mér ískrandi kæti með skylmingum sínum ...

(Í fornum kappasögum er það síðarnefnda að vísu fremur hæpinn mælikvarði á kappabrag fylgismanna) ...

Og nú tekur nýr maður við embættinu. Líklega verður veðragnýrinn þar á Álftanesi minni á næstunni en verið hefur. Nýr forseti verður líka minn forseti. Honum og hans öllum óska ég farsældar...

Bjarni Guðmundsson
á Hvanneyri skrifar á Facebook-síðu sinni.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31