Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri skrifar um orðuna
Les að orðuveitingar hafa orðið umskrifunarefni á FB bæði og fréttaefni undanfarna daga.
Hvort tveggja minnir mig á að ég á eina fálkaorðu hérna oní skrifborðsskúffunni minni, neðarlega vinstra megin. Það hefur lent í útideyfu hjá mér að hengja hana á mig á til þess hæfum dögum, ég hafði hana bara stundarkorn í barminum 17. júní 2005.
Ég les að þetta sé snobbkennt, smáborgaralegt, rojalt, hernaðarlegt, minni á löngu liðna tíð, tengist klíkuskap og að þroskað fólk afþakki jafnan slíkt tildur. Má allt rétt vera.
Hins vegar er það svo rart að vegna þessa litla grips þykir mér enn vænna en áður um það samfélag sem ég hef fengið að þjóna, og einstaklingana sem það mynda, því að ég trúi því að þaðan sé þessi litla kveðja komin.
Vandmeðfarin fyrir veitanda og þiggjanda, það skal viðurkennt.
En allt sem getur aukið virðingu okkar hvert fyrir öðru og almenna væntumþykju í samfélaginu er af hinu góða.
Kannski ég tylli gripnum í vinstra jakkaboðunginn á Nýársdag - og ákveði með því að hugsa hlýtt til samborgara minna þann dag og þá 364 aðra sem í hönd fara undir ártalinu 2015 - þ.e. ef Himnasmiður gefur mér þá alla ...?
Af Facebook-síðu Bjarna Guðmundssonar á Hvanneyri.