Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri grefur upp -LVII- ára gamla minningu frá Núpi
Núpsskóli. Litlu jólin. Jólamatur. Jólakvöldvaka undir stjórn Sigga Guðmunds. Jólaball. Marsar og hinar æfingarnar. Arngrímur kennari dansar óvenju glaður Stjóri stendur við útidyrnar niðri. Fylgist grannt með okkur í gegnum hnausþykk gleraugu sín. Alvarlegur að venju ...
Fáum koma ansastrik í hug, vessarnir hafa vikið fyrir barnslegri hlökkun til jóla. Jólaleyfi að morgni. Raunar fyrr. Von á Gullfossi, flaggskipi íslenska flotans undir stjórn Kristjáns Aðalsteinssonar frá Hrauni inn á Núpsbót í nótt. Er að koma jólaferðina frá Akureyri.
Lítið sofið, eiginlega ekkert. Dansað fram á rauðanótt. Harmoníka, kannski segulband? Ys og þys á vistum. Brátt sér til ljósa hins tignarlega skips. Þau speglast í lygnum og myrkum haffletinum undir skörðum mána yfir Helgafelli.
Sunnankrakkarnir halda niðrað Núpssjó með föggur sínar. Ætli Valdi á Núpi sé þar ekki tilbúinn með bátinn sinn að flytja þau fram í Gullfoss. ...
Við hin fáum okkur kríu. Í birtingu höldum við stútfull af tilhlökkun inn að Gemlufalli. Með Valgeiri á Hallberu þverfirðis að Þingeyri. Dreifumst þaðan. Jólakortablíða og lygn Fjörðurinn.
Mikið óskaplega var gaman að komast í jólafrí. Heim.
Líklega varð þó enginn glaðari en Stjóri, sr. Eiríkur á Núpi - að sjá á bak liðinu, að vera laus við okkur, stórt hundrað baldinna krakka fram á næsta ár.
Og ljósin á Gullfossi hurfu fyrir Hafnarnesið ....
Af Facebook-síðu Bjarna Guðmundssonar.