Bjarni Guðmundsson: - Prestur hverfur á leið til kirkju á nýársdag
Slysið undir Eyrarófæru í Dýrafirði 1. janúar 1943
Undir hið forna Sandaprestakall í Dýrafirði heyrðu lengi vel tvær kirkjur: Að Söndum, síðar á Þingeyri, og að Hrauni í Keldudal. Hraun var annexían og þangað var erfið sóknarleið, tiltekið á milli bæjanna Sveinseyrar og Arnarnúps, þar sem um Eyrarófæru var að fara og um aðrar brattar skriður undir hamrahvössum Arnarnúpnum. Leiðin var rudd gangandi fólki og hana mátti fara með reið- og reiðingshesta í öllu sæmilegu færi. Á vetrum var leiðin hins vegar viðsjárverð svo sem nærri má geta. Undrafáar sagnir eru þó um slysfarir á þessum slóðum.
Á nýársdag 1943 var sr. Sigurður Z. Gíslason sóknarprestur á Þingeyri á leið til annexíu sinnar að Hrauni þar sem hann hugðist syngja messu samkvæmt venju. Þegar hann kom ekki fram á tilætluðum tíma var farið að spyrjast fyrir um hann. Engar spurnir bárust af presti og hafin var áköf leit sem lengi vel bar engan árangur. Ýmsar getgátur vöknuðu um hvarfið og það var lengi óupplýst. En liðlega þremur vikum síðar fannst lík prestsins. Hann hafði farist í snjóflóði undir Eyrarófæru. Sr. Sigurður var jarðsunginn frá Þingeyrarkirkju á Kyndilmessu 1943 við mikla hluttekningu sóknarbarna sinna.
Hver var Sigurður Z. Gíslason?
Sigurður Zóphonías hét hann og fæddist 15. júlí 1900 á Egilsstöðum í Vopnafirði, sonur hjónanna Jónínu Hildar Benediktsdóttur og Gísla Sigurðar Helgasonar. Hann lauk prófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1920 en tók stúdentspróf í Reykjavík 1923. Embættisprófi í guðfræði lauk hann vorið 1927. Þá um haustið vígðist hann til Staðarhólsþinga í Dölum og sat þar til vors 1929, er hann fékk veitingu fyrir Sandaprestakalli í Dýrafirði. Kona Sigurðar var Guðrún Jónsdóttir frá Hvammi í Landsveit. Þau eignuðust sex börn: Ólöfu, Dóru Laufeyju, Jón, Ásgeir, Jónas Gísla og Gunnar.
Sr. Sigurður Z. keppti við nafna sinn Haukdal um Sandaprestakall þegar sr. Þórður Ólafsson fékk lausn frá embætti. Móðir mín sagði mér að nokkuð hafi börn sóknanna skipst í fylkingar að baki umsækjendunum tveimur. Sr. Sigurður Haukdal, sem átti stóran frændgarð þar í sveit hafði áform um búskap á Söndum. Þau áform hugnaðist sveitafólkinu vel. Sr. Sigurður Z. gat hins vegar hugsað sér að Sandajörðin yrði einnig notuð fyrir búskap þorpsbúa, beit og heyskap, en þorpið var þá í vexti og margir þar kusu að hafa smábúskap með sér til uppheldis eins og þá var algengt í þéttbýli. Sr. Sigurður Z. hafði betur í kosningunni og lagðist hefðbundinn búskapur að mestu af á Söndum þótt prestur fengi jörðina til lögbundinnar ábúðar. Þorpsbúar fengu þar búskaparaðstöðu í vaxandi mæli. Mér virðist sem prestkosningin hafi skerpt línurnar á milli þorpsbúa og þeirra sem í sveitinni bjuggu. Fáir eftirmálar munu þó hafa orðið en tími leið þangað til prestur fékk fastan embættisbústað á Þingeyri.
Sr. Sigurður Z. hafði nokkurn búskap með embætti sínu a.m. k. fyrstu árin. Faðir hans, Gísli, var stoð hans og stytta við ýmis útiverk, ásamt með konu sinni, en þau hjón fluttu vestur og dvöldu þar meðan Jónína lifði. Gísli kynnti sig vel meðal nágrannabænda, var mér sagt; varð t.d. heimilisvinur móðurfólks míns á Kirkjubóli.
Í dagblaði sagði m.a. um Sigurð: „Séra Sigurður Z. Gíslason var orðinn landskunnur maður fyrir löngu vegna ýmissa mála sem hann beitti sér fyrir af miklum áhuga og ósérplægni. Hann var einna fyrstur til að skrifa um það, að haldinn skyldi einn dagur á ári hátíðlegur vegna sjómannastéttarinnar og ferðaðist hann eitt sinn víða og ræddi þessi mál. Hann var mælskur vel og ósérhlífinn að hverju sem hann gekk.“
Tengdasonur sr. Sigurðar Z., Hjörtur Þórarinsson áður skólastjóri, hefur gert glögga grein fyrir ævistörfum, áhugamálum og hugsjónum prests og verður það ekki endurtekið hér. Sr. Sigurður vakti snemma athygli samferðamanna sinna og meðal annars hefur Hjörtur eftir nágrannapresti sr. Sigurðar Z., sr. Jóni Ólafssyni í Holti: „Sífellt voru að kvikna ný hugarleiftur í sál hans. Við hrifumst með af eldmóði hans og bjartsýni. Hann var mjög tilfinninganæmur og viðkvæmur í lund. En hann var alltaf hlýr í viðmóti og barnslega einlægur og laus við undirhyggju. Þess vegna held ég að menn hafi borið því hlýrri hug til hans sem þeir kynntust honum betur“. . .
Upphaf greinar Dýrfirðingsins Bjarna Guðmundssonar á Hvanneyri í Borgarfirði í nýjasta hefi bókarinnar –Frá Bjargtöngum að Djúpi- sem Vestfirska forlagið gaf út fyrir jólinn 2014.
Vestfirska forlagið 20 ára.