14.04.2009 - 00:30 | bb.is
„Bankamenn dragbítar á atvinnulífið“
Skilnings- og þekkingarleysi íslenskra bankamanna er dragbítur á uppbyggingu atvinnulífsins að sögn Jónatans Þórðarsonar, forsvarsmanns Dýrfisks ehf, sem rekur regnbogasilungseldi í Dýrafirði og á Tálknafirði. Hann segir enga fjárfestingu betri í dag en fiskeldi en samt fáist ekki lánsfé. Skortur sé á laxfiski á heimsmarkaði og því sé fiskeldi aftur að vaxa fiskur um hrygg hér á landi. Dýrfiskur ætlar sér stóra hluti í lax- og silungseldi. Félagið er með seiðaeldi í Tálknafirði og sjókvíaeldi í Dýrafirði. Jónatan segir útlitið í greininni afar gott í dag. Vandamálið sé hins vegar að útvega lánsfé til að uppbyggingin gangi eins hratt fyrir sig og æskilegt væri. Frá þessu er greint á ruv.is.