Baldur á ný um Breiðafjörð
Stefnt er að því að Breiðafjarðarferjan Baldur sigli samkvæmt áætlun á mánudag, 22. janúar 2018, eftir tveggja mánaða frátafir vegna alvarlegra bilana í aðalvél. Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, segist fagna því að þessi erfiði tími fyrir fyrirtækið og viðskiptavini þess virðist vera að baki. Hann segir að kostnaður vegna viðgerða nemi tugum milljóna króna.
Í gær á að ræsa aðalvél Baldurs, í dag á að ljúka stillingum á vélinni og fara í reynslusiglingu um Breiðafjörðinn. Skipið hefur legið í Stykkishólmi síðan bilun kom í ljós í aðalvél að lokinni ferð sunnudaginn 19. nóvember. Meðal annars gáfu legur sig í vélinni og við frekari athugun kom í ljós að sveifarásinn var ónýtur, en nýr sveifarás fékkst í Danmörku þangað sem flogið hafði verið með þann gamla til viðgerðar.
Að sögn Gunnlaugs hefur allsherjar vélarupptekt farið fram í Baldri, en tíminn jafnframt verið notaður til að mála, dúkleggja og skipta um hreinlætistæki á salernum skipsins.
Særún fór í 20 ferðir
Í fjarveru Baldurs hefur farþegabáturinn Særún farið 20 ferðir til Flateyjar og í sjö þeirra alla leið upp á Brjánslæk. Bilun varð í Særúnu og var farþegabáturinn Íris SH leigður í eina ferð. Ef allt hefði verið með felldu hefði Baldur siglt sex daga í viku þessa tvo mánuði.
Á þessum árstíma er minna en ella um flutninga á fólki og bílum með Baldri, en fiskútflytjendur reiða sig á siglingar skipsins þegar heiðar og hálsar lokast. Gunnlaugur segir að sem betur fer hafi ekki oft verið ófært þennan tíma, en þó hafi komið dagar þar sem hafi verið krosslokað með tilheyrandi erfiðleikum.