Bækurnar að vestan: - Fimm nýjar bækur væntanlegar hjá Vestfirska forlaginu
Næstu vikur eru fimm nýjar bækur væntanlegar í jólabókaflóðið frá Vestfirska forlaginu.
Þær eru þessar:
Gamlar glefsur og nýjar
Vegprestar vísa veginn
Eftir Gunnar B. Eydal
Gunnar B. Eydal er Akureyringur, alinn upp undir fána KEA og SÍS. En ekki staðnæmdist hann undir þeim merkjum. Í árafjöld starfaði Gunnar sem skrifstofustjóri borgarstjórnar í Reykjavík. Skipti þá ekki máli hverjir sátu þar við stjórnvölinn. Er það nokkur mannlýsing. Þessi bók er ekki ævisaga heldur glefsur úr lífi mínu segir höfundur. Framsetningin er svolítið sundurlaus og hlaupið úr einu í annað segir hann. Það kemur þó ekki í veg fyrir að glefsur þessar eru bæði vel skrifaðar, gagnorðar og lifandi. Húmorinn skín svo alls staðar í gegn! Margir karakterar koma við sögu, háir sem lágir, landskunnir sem óþekktir. Frásagnir Gunnars og þættir munu vekja áhuga margra.
Átthagar
Ísfirðingar margra landa segja frá
Eftir Herdísi Hübner
Í þessari bók er lesendum boðið í heimsreisu með viðkomu á Jamaica, Sri Lanka, El Salvador, Rússlandi, Þýskalandi, Póllandi, Ungverjalandi, Tælandi og Ástralíu. Jafnframt er lagt í tímaferðalag nokkra áratugi aftur í tímann því hér birtast sögur frá uppvaxtar- og æskuárum níu kvenna á ýmsum aldri í þessum fjarlægu löndum. Konurnar eiga það sameiginlegt að hafa búið á Ísafirði í fjölda ára en að öðru leyti eru þær ólíkar, hafa ólíkan bakgrunn og hver og ein er fulltrúi sjálfrar sín og einskis annars. Á Ísafirði hafa þær unnið margvísleg störf og allar hafa þær lagt mikið af mörkum til lífsins í bænum, auðgað það og eflt með ýmsu móti og eru sannkallaðir máttarstólpar samfélagsins. Þessi bók er afar gott innlegg í umræðu dagsins.
Þorp verður til á Flateyri
- hefti af þremur væntanlegum
Eftir Jóhönnu Guðrúnu Kristjánsdóttur
Teikningar: Freydís Kristjánsdóttir
Flateyri við Önundarfjörð varð til sem þorp á síðari hluta 19. aldar. Eins og önnur þorp við sjávarsíðuna allt í kring um landið voru fiskveiðar og vinnsla aflans sá atvinnugrunnur sem gerði búsetu á mölinni eftirsóknarverða fyrir þá sem voru að koma undir sig fótunum. Í þessu verki er grundvöllurinn fréttaefni úr sendibréfum sem rituð voru á Flateyri um aldamótin 1900 og eru þau hluti tveggja bréfasafna sem hafa nú um 100 ára skeið legið þar í ferðakofforti og kommóðuskúffu. Í verkinu kennir ýmissa grasa úr sögu þorpsins sem mörgum mun þykja forvitnilegt að skoða.
Súgfirðingur fer út í heim
Eftir Guðbjart Gunnarsson
Sem unglingur í Súgandafirði átti Guðbjartur Gunnarsson sér þann draum að komast að því, hvað væri handan þessara háu fjalla, sem skyggðu á sólina marga, langa mánuði á ári. Hann fór suður, tók kennarapróf, stundaði kennslu og tókst að fara tvisvar til náms á Bretlandseyjum og þrisvar til Bandaríkjanna, þar sem hann lauk meistaraprófi í fjölmiðlafræðum. Gerðist síðan einn af fyrstu starfsmönnum Sjónvarpsins fyrir 50 árum, og hafði umsjón með gerð fræðsluefnis. Guðbjartur setti saman fyrstu áfangalýsingar í fjölmiðlafræðum fyrir framhaldsskóla og hóf fyrstu skrefin í kennslu samkvæmt þeim. Samdi kennsluefni í íslensku handa enskumælandi nemendum í Kanada og Bandaríkjunum á vegum Íslendingafélagsins í Kanada. Og svona má lengi telja. Guðbjartur er nú búsettur á Filippseyjum.
Húsið á heimsenda
Eftir Helgu Sv. Helgadóttur
Teikningar: Katrín Matthíasdóttir
Blær er að klára 4. bekk þegar foreldrar hennar leigja gamalt hús á Vestfjörðum. Full tilhlökkunar leggur fjölskyldan land undir fót en ekki er allt sem sýnist. Það er margt sem skeður úti á landi sem ekki er á dagskrá í Reykjavík. Stórskemmtileg og þroskandi barnabók fyrir börn á öllum aldri úr íslenskum veruleika. Bæði fyrir stráka og stelpur!