06.09.2008 - 00:05 | bb.is
Bæjarstjórn áréttar fyrri bókanir sínar
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar því að fyrsta sprengjan við gerð jarðganga milli Bolungarvíkur og Hnífsdals hafi verið sprengd í gær. „Göngin munu marka mikil tímamót í samgöngum á norðanverðum Vestfjörðum, auka öryggi vegfarenda og efla tengsl milli íbúa svæðisins. Jafnframt lýsir bæjarstjórn því yfir og áréttar þar með fyrri bókanir sínar sem og samþykktir Fjórðungsþings, að hið fyrsta verði hafist handa við gerð næstu jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Í því sambandi hvetur bæjarstjórn samgönguráðherra til að fylgja eftir vilja vestfirskra sveitarstjórnarmanna sem endurspeglast í samþykktum fjórðungsþings.