A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
28.08.2016 - 11:10 | Vestfirska forlagið,timarit.is,Hlynur Þór Magnússon,Bæjarins beska vikublað,Björn Ingi Bjarnason

Bæjarins besta - 49. tölublað 12. desember 2009 - -Upphaf Vestfirska forlagsins-

Hallgrímur Sveinsson.
Hallgrímur Sveinsson.
« 1 af 2 »

– Hvenær byrjaðirðu bókaútgáfu og hvað varð til þess?

„Þegar við vorum á Hrafnseyri var ég sífellt að kynna staðinn og segja fólki sögu Jóns Sigurðssonar. Því miður hefur það verið þannig gegnum tíðina, að fólk hefur séð Jón Sigurðsson sem standmynd steypta í eir á Austurvelli og nafnið Jón Sigurðsson forseti. Fæstir hafa hins vegar getað svarað því hvers vegna hann var kallaður forseti eða fyrir hvað hann stendur raunverulega í þjóðarsögunni.

Vegna hinnar almennu fáfræði um Jón forseta sem ég varð var við á Hrafnseyri sá ég þörfina á því að reyna að bæta þar úr með einhverjum hætti. Það hefur verið mjög algengur misskilningur allt til þessa dags, að Jón hafi verið fyrsti forseti Íslands. Jón var hins vegar forseti Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags og þaðan fékk hann viðurnefnið forseti. Hann var kosinn til þess embættis að sjálfum honum forspurðum þegar hann var einu sinni sem oftar staddur á skipi úti á Atlantshafi á leið til Íslands. Raunar var hann líka löngum forseti Alþingis.

Árið 1994 var svo komið, að ég ákvað að setja saman alþýðlega bók um Jón forseta. Ekki kannski síst í minningu litlu fræðsluritanna sem hann sjálfur skrifaði fyrir íslenska sjómenn og bændur. Ég ákvað að skrifa bók sem væri ekki fræðirit heldur einfaldar staðreyndir um æviferil Jóns. Auðvitað voru til feiknarlegar bækur um hann sem fáir lásu, þar á meðal ævisaga hans eftir Pál Eggert Ólason prófessor í fimm hnausþykkum bindum, og síðan bækur eftir Lúðvík Kristjánsson og Einar Laxness og fleiri góða menn.

Einhvern veginn fann ég fyrir þessari þörf og skrifaði því þessa bók og gekk auðvitað í smiðju til allra þessara manna sem ég var að nefna. Ég minnist þess að Einar Laxness sagði við mig eitthvað á þá leið, að mér bæri skylda til þess að halda nafni Jóns á lofti sem staðarins manns. Ég er ekki frá því að þau orð hans hafi haft nokkur áhrif á mig. Ég fór svo í prentsmiðjuna Ísprent á Ísafirði og hitti þar góða menn og þeir prentuðu þessa bók fyrir mig. Ég lærði heilmikið af þeim mönnum enda vissi ég á þeim tíma varla hvað prentsmiðja var.

Bókin hefur verið endurprentuð og hefur verið í gangi allar götur síðan. Þessi frumraun mín í útgáfu lukkaðist bara nokkuð vel þó að á henni séu gallar eins og öðrum mannanna verkum. Henni hefur verið vel tekið. Hún var fyrst og fremst hugsuð fyrir almenning og ekki síst skólabörn.

Síðan þetta var eru nú bara liðin fimmtán ár (BIB innskot 22 ár. 1994 – 2016). Það eru núna fimmtán ár (BIB innskot, 22ár) frá því að Vestfirska forlaginu var formlega hleypt af stokkunum.

Næsta skrefið var að þýða bókina um Jón forseta á ensku. Það gerði sá góði maður og mikli enskumaður og ritstjóri, Hersteinn Pálsson. Alveg óaðfinnanleg þýðing.

Fyrir nokkru hitti ég Björn Davíðsson í Snerpu á Ísafirði og við vorum að rifja það upp að eitt af fyrstu verkunum hjá Snerpu var umbrotið á þessari bók og frágangur hennar til prentunar. Þessi fyrirtæki bæði, Vestfirska forlagið og Snerpa, eru alveg á sömu járnum hvað aldur varðar.“

Hluti viðtals Hlyns Þórs Magnússonar í Bæjarins besta við Hallgrím Sveinsson -  49. tölublað 12. desember 2009.


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31