Babb í bátinn á Flateyri
Nú er komið Babb í bátinn á Flateyri í Önundarfirði. Samkvæmt gömlu orðabókinni okkar þýðir það strik í reikninginn. Ekki vitum við samt af neinu sérstöku babbi á þeim góða stað, nema þetta sem allir vita: Hrörnun byggðarinnar eins og víðar hér vestra. Á gamla frystihúsinu hafa listamenn aftur á móti látið ljós sitt skína eins og sjá má í baksýn myndarinnar.
Höfðingjana tvo á myndinni þekkja margir sem þetta lesa. Auðvitað eru þetta Kristján Gunnarsson, bóndi frá Miðbæ í Haukadal, sem fullyrða má að sé sérfræðingur í sauðfjárrækt. Og svo Ólafur V. Þórðarson frá Auðkúlu í Arnarfirði til hægri. Hann var lengi verslunarstjóri hjá Kaupfélagi Dýrfirðinga á Þingeyri, útvegsbóndi og gamall kvótagreifi.
Þeir félagar voru í opinberri heimsókn á Flateyri í gær sem fulltrúar Vestfirska forlagsins ásamt þeim sem þetta ritar.