Atkvæðin týndust í fangelsi
• Dularfullur eftirmáli kosninga á Vesturlandi 1987
• Lögreglurannsókn og þjóðfélagið nötraði
Eftirleikur alþingiskosninga í Vesturlandskjördæmi vorið 1987 var sögulegur í meira lagi, því þegar farið var að telja atkvæði kom í ljós að 48 atkvæðaseðla vantaði borið saman við skráðan fjölda þeirra sem neytt höfðu atkvæðisréttar. Málið þótti allt með ólíkindum. Kjördagur var 25. apríl, laugardagur venju samkvæmt, og þegar komið var fram á þriðjudag sneri yfirkjörstjórn sér til sýslumannsins í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og óskaði eftir opinberri rannsókn á málinu. Hvar voru atkvæðin? Þjóðfélagið nötraði.
Öllum steinum var velt við
Úr varð að á miðvikudegi fóru menn frá Rannsóknarlögreglu ríkisins, sem þá var, upp í Borgarnes og Bogi Nilsson, yfirmaður stofnunarinnar, hóf rannsókn. Menn voru yfirheyrðir, öllum steinum velt við og ekkert var útilokað. Það var svo laust fyrir klukkan 21 um kvöldið sem Björn Þorbjörnsson, lögreglumaður, fór að leita að bókum og gögnum viðvíkjandi kjörfundi sem geymd voru í kjörkössunum sem settir höfðu verið inn í fangageymslu lögreglunnar.
„Þegar ég opnaði þriðja kassann og tók bókina úr honum, blasti þetta við mér,“ sagði Björn. „Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum, en það lyftist brúnin á mönnum hér í húsi þegar þetta fréttist,“ sagði Björn í samtali við Morgunblaðið 30. apríl 1987. Gátan var ráðin og strax um nóttina kom yfirkjörstjórn til fundar þar sem þessi síðustu atkvæði voru talin. - Skipting þeirra var á þá lund að Alþýðuflokkurinn fékk 5 atkvæði, Framsóknarflokkurinn 18, Sjálfstæðisflokkur sjö, Alþýðubandalagið fjögur, þrír greiddu Þjóðarflokknum atkvæði, 5 kusu Borgaraflokkinn og þrír Samtök um kvennalista. Voru þessar tölur í samræmi við heildarúrslitin í kjördæminu. Skipan þingsæta breyttist ekki.
Alþýðuflokkur fékk sveitafylgi
Atkvæðaseðlarnir sem týndust voru frá kjörfundi í Hörðudal í Dalasýslu; litlum hreppi sem fyrir löngu er orðinn hluti af stærra sveitarfélagi; Dalabyggð. Þetta er rótgróið sveitahérað og kannski var eftir bókinni að um helmingur kjósenda þarna studdi Framsókn og Sjálfstæðisflokk. Fylgisspekt Dalamanna við Friðjón Þórðarson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, var líka traust.
„Hvort ég man eftir þessu. Þetta var stórmál og auðvitað var ekki hægt að gefa út lokatölur fyrir landið fyrr en skýringar á Vesturlandi væru fundnar. Ýmsar kenningar höfðu þá áður komið fram, en sumum þótti þetta eiginlega óskiljanlegt,“ segir Eiður S. Guðnason sem á þessum tíma var þingmaður Alþýðuflokksins á Vesturlandi. Og hann heldur áfram:
„Fulltrúi okkar Alþýðuflokksmanna í yfirkjörstjórn var Sveinn Kr. Guðmundsson á Akranesi. Hann var ákaflega nákvæmur og samviskusamur í öllu sem hann gerði, og mikið var honum létt, og sjálfsagt öllum í kjörstjórninni, þegar skýring fannst á málinu. En mörgum fannst merkilegt að Alþýðuflokkurinn skyldi fá fimm atkvæði í þessum fámenna hreppi. Í sveitunum voru menn kannski ekki mikið að flíka stuðningi sínum við Alþýðuflokkinn, en hann leyndist þó víða.“
Morgunblað'ið laugardagurinn 29. október 2016.