A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
25.06.2016 - 11:31 | Hildur Inga Rúnarsdóttir

Ástin, drekinn og Auður djúpúðga á Dýrafjarðardögum

Vilborg Davíðsdóttir
Vilborg Davíðsdóttir
« 1 af 4 »

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur og þjóðfræðingur sækir æskuslóðirnar heim um Dýrafjarðardagana og mun flytja þar tvo fyrirlestra, annan um sögur sínar af landnámskonunni Auði djúpúðgu og hinn um nýjustu bók sína sem ber titilinn  Ástin, drekinn og dauðinn.


Vilborg hefur sent frá sér sjö sögulegar skáldsögur sem gerast á fyrri öldum. Tvær þær síðustu,
Auður og Vígroði, segja frá ævi Auðar Ketilsdóttur og aðdraganda landnáms á Íslandi. „Þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti.“ Þannig farast sögumanni Laxdælu orð um ferð Auðar frá Skotlandi til Íslands í lok níundu aldar.

Vilborg vinnur nú að þriðju og síðustu bókinni um landnámskonuna þar sem hún spinnur þráðinn út frá þessum þekktu orðum, ásamt heimildum um atburði í Skotlandi á sögutímanum. Hún mun segja frá skrifum sínum í máli og myndum og lesa kaflabrot úr bókinni sem er fyrirhugað að komi út á næsta ári. Erindið um Auði nefnist ,,Einn kvenmaður“ og er á dagskrá föstudaginn 1. júlí kl. 20:30 á Gíslastöðum í Haukadal.


Seinni fyrirlesturinn flytur Vilborg í Þingeyrarkirkju laugardaginn 2. júlí kl. 16. Þar mun hún segja frá sannsögunni Ástin, drekinn og dauðinn sem kom út í fyrra og deila með áheyrendum sýn sinni á ástina, sorgina og lífið. Vilborg segir frá vegferð sinni og eiginmanns síns, Björgvins Ingimarssonar, með heilakrabbameini sem þau vissu að myndi draga hann til dauða í blóma lífsins og miðlar því sem sorgin hefur kennt henni: mikilvægi þess að lifa í sátt og viðtekt í núinu og vanda sig við að elska, lifa og deyja. Þá segir hún einnig frá samtölum sínum við föður sinn, Davíð H. Kristjánsson, fyrrum vélstjóra og flugvallarvörð á Þingeyri, sem greindist með krabbamein daginn eftir jarðarför Björgvins, í febrúar 2013. Davíð lést 12. júlí 2014.

 

Fyrirlestrar Vilborgar víða um land hafa vakið mikla athygli og hún hlotið lof fyrir að fjalla um ástvinamissi og sorg á áhrifamikinn en um leið jarðbundinn hátt og vekja fólk til vitundar um gildi þess að njóta lífsins til fulls á hverjum degi.

 

 ----

 

Um Vilborgu Davíðsdóttur:

 

Vilborg Davíðsdóttir er fædd á Þingeyri við Dýrafjörð árið 1965. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Ísafirði 1984 lærði hún ensku við Háskóla Íslands í ár en var þá búin að finna fjölina sína í blaðamennsku og yfirgaf akademíuna fyrir vinnu á fjölmiðlum þar sem hún starfaði fram til ársins 2000, meðal annars sem blaðamaður á BB, Þjóðviljanum og DV og hjá Stöð 2/Bylgjunni og Rás 2. Hún hélt þó í Háskólann aftur þegar kennsla hófst í hagnýtri fjölmiðlun og lauk prófi í henni árið 1991. Þá lauk Vilborg BA prófi í þjóðfræði 2005 og MA í sömu grein 2011. BA ritgerðin fjallaði um grímu-og heimsóknarsiðinn á Þingeyri á þrettándanum og meistararitgerðin um sagnahefð og þjóðtrú á Hjaltlandseyjum. Vilborg hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín og þau hafa verið þýdd á færeysku, þýsku, ensku, og nú nýlega einnig á arabísku. Nú er unnið að kvikmyndahandriti sem byggt er á Hrafninum, bók hennar sem gerist á miðöldum á Grænlandi. Vilborg býr í Reykjavík og er móðir þriggja barna.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31