Arnarfjarðarför í fögru haustveðri 6. Lokagrein - Liljubrú skal hún heita!
Allt hefur sitt upphaf og endi. Er nú komið að lokafrásögninni um Arnarfjarðarferð okkar félaganna í frábæru haustveðrinu um daginn. Vafalaust eru lesendur Þingeyrarvefsins orðnir nokkuð þreyttir á henni. Hvað sem um það er, enduðum við út í Mosdal og tókum út nýju brúna á Ósánni. Er skemmst frá því að segja að það mannvirki er til mikillar fyrirmyndar og brúarsmiðunum frá Hvammstanga undir stjórn Sigurðar Halls Sigurðssonar til mikils sóma.
Frá því er að segja að varla hefur nokkur maður reiknað með því til skamms tíma að sú brú ætti eftir að verða að veruleika. En aldrei að segja aldrei! Bjössi á Ósi fullyrðir að frúin á Laugabóli, Lilja Gissurardóttir, sambýliskona Árna B. Erlingssonar, hafi unnið að því með oddi og egg að Vegagerðin reisti þá brú. Hefur hún ekki gefð neitt eftir í brúarsmíðinni frekar en að fá borið ofan í Urðarhlíðina, segir Bjössi. Hann veit alveg hvað hann er að segja í því máli.
Það hefur tíðkast í gegnum tíðina að brýr hafa fengið nöfn. Til dæmis Borgarfjarðarbrú, Dýrafjarðarbrú, Þjórsárbrú, o. s. frv. Á Mosdalsfundinum nefndi Þorbjörn Pétursson sér votta að því að hann vildi að brúin yrði nefnd Liljubrú í höfuðið á hinni vösku valkyrju á Laugabóli. Var það samþykkt á fundinum með öllum greiddum atkvæðum.