A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
18.05.2016 - 06:21 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Arctic Fish fær umhverfisvottun

• Fyrsta eldisfyrirtækið á Íslandi sem fær vottun ASC sem er sérstaklega löguð að fiskeldi • Fyrstu vottuðu laxaseiðin úr nýrri seiðastöð sett í kvíar í haust

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish á Vestfjörðum hefur hlotið eftirsótta alþjóðlega umhverfisvottun Aquaculture Stewardship Council (ASC), fyrst íslenskra fyrirtækja.

Stjórnendur og starfsfólk Arctic Fish og dótturfélaga þess, seiðaeldisins Arctic Smolt í Tálknafirði, sjóeldisstöðvarinnar Arctic Sea Farm (Dýrfiskur) í Dýrafirði og vinnslufyrirtækisins Arctic Odda á Flateyri, hafa unnið að því undanfarin ár að undirbúa og uppfylla kröfur umhverfisstaðalsins sem vottunin byggist á. Hún var staðfest af stjórn ASC í síðustu viku.

Stóru íslensku fiskeldisfyrirtækin fá hærra verð en keppinautar erlendis vegna vottana af ýmsu tagi sem greiða þeim leið inn á betri markaði. Vottun ASC er viðbót við það.

Í fréttatilkynningu frá Arctic Fish kemur fram að vottun ASC sé hliðstæð alþjóðastaðlinum MSC sem er þekktasti umhverfisstaðall sjávarafurða. ASC hefur hins vegar verið aðlagaður eldisafurðum sérstaklega.

Arctic Fisk hóf starfsemi sína undir nafni Dýrfisks í Dýrafirði á árinu 2011. Það er að byggja upp nýja seiðaeldisstöð í Tálknafirði og er að undirbúa frekari vöxt í sjókvíaeldi, meðal annars í laxeldi sem gert er ráð fyrir að verði meginsvið félagsins í framtíðinni. Fyrstu laxaseiðin verða sett út í haust.

Fram kemur í tilkynningu fyrirtækisins að umhverfisaðstæður á Vestfjörðum, með hreinan sjó, lágt hitastig og lítinn þéttleika í kvíum, hindri viðgang sjúkdóma og því sé engin lyfjanotkun í eldi félagsins. Ísland sé laust við þau vandamál sem þekkt eru í erlendu fiskeldi auk þess sem markvissar starfsaðferðir félagsins hámarki hreinleika og gæði afurðanna sem veiti því ákveðið forskot á markaði.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 18. maí 2016.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31