Annar góður úr 100 Vestfirskum gamansögum: - Upplogið kvennafar!
Hannibal Guðmundsson á Hanhóli í Syðridal í Bolungarvík var oft skjótur til svars og komst vel að orði. Börn þeirra Hanhólshjóna voru sextán talsins og þeirra á meðal nokkrar dætur sem voru hver annarri myndarlegri, sannkallaður kvennablómi.
Þegar þessi saga gerðist var Lilja dóttir Hannibals orðin gjafvaxta og farinn að vinna niðri í Bolungarvík þar sem hún leigði sér herbergi. Ólafur Halldórsson, seinna skipstjóri, var þá ungur maður. Hann mætti Hannibal eitt sinn snemma morguns á götu í Bolungarvík.
Óli hugsaði sér að hrella karlinn svolítið og sagði:
Ég sat hjá Lilju dóttur þinni í alla nótt við að spila.
Hannibal lét Óla ekki slá sig út af laginu og svaraði:
Eitthvað hlýtur að vera að hjá þér. Ef þið hafið bara verið að spila skaltu fara til læknis.