Andlát: Jenna Jensdóttir rithöfundur
Jenna Jensdóttir, kennari og rithöfundur, lést á Hrafnistu í Reykjavík í gær, á 98. aldursári. Eftir hana og Hreiðar Stefánsson, mann hennar, liggur mikill fjöldi barna- og unglingabóka. Þekktastar eru Öddubækurnar.
Jenna fæddist 24. ágúst 1918 á Læk í Dýrafirði. Foreldrar hennar voru Ásta Sóllilja Kristjánsdóttir húsfreyja og Jens Guðmundur Jónsson, bóndi og kennari.
Hún stundaði nám við Kennaraskólann og nam við Háskóla Íslands, auk leiklistarnáms hjá Lárusi Ingólfssyni. Hún stofnaði „Hreiðarsskóla“ á Akureyri ásamt manni sínum árið 1942 og starfaði við hann í 21 ár og síðan við Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar. Eftir að þau fluttu til Reykjavíkur árið 1963 var Jenna kennari við Langholtsskóla í tvo áratugi, við Barnaskóla Garðabæjar og lengi við Námsflokka Reykjavíkur. Hún var bókmenntagagnrýnandi, þátta- og greinahöfundur við Morgunblaðið í áratugi.
Hún er höfundur á þriðja tug bóka fyrir börn og unglinga ásamt Hreiðari. Hún gaf einnig út eina ljóðabók og tvö rit með smásögum.
Jenna var virk í félagsmálum, starfaði meðal annars í barnaverndarnefnd og Kvenfélaginu Framtíðinni á Akureyri og var í stjórn og um tíma formaður Félags íslenskra rithöfunda. Hún var einn stofnenda Delta Kappa Gamma á Íslandi og var í skólasafnanefnd Reykjavíkur. Hún hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf að fræðslumálum og ritstörf. Síðast var hún heiðruð á Menningarhátíð Seltjarnarness á síðasta ári en hún bjó á Seltjarnarnesi í mörg ár.
Eiginmaður Jennu var Hreiðar Stefánsson, kennari og rithöfundur. Hann lést fyrir rúmum tuttugu árum. Synir þeirra eru læknarnir Ástráður Benedikt og Stefán Jóhann. Barnabörn og barnabarnabörn Jennu og Hreiðars eru orðin 23.
Morgunblaðið mánudagurinn 7. mars 2016