Alþýðumaðurinn Jón úr Vör
Jón Jónsson úr Vör varð þjóðkunnur fyrir aðra ljóðabók sína, Þorpið, sem kom út 1946. Í kynningu á ljóðasafni hans, sem kemur út í dag, á hundrað ára afmæli Jóns, sem fæddist 1917 og lést 2000, segir að hann hafi verið »helsti forkólfur raunsæis, undanfari atómskáldanna og áhrifaskáldið þegar horft er til ljóða þeirra sem síðar komu fram á sjónarsviðið«.
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson Dimmubóndi gefur ljóðsafnið út og ritar inngang að því. Hann segist hafa verið að garfa í ljóðum á síðasta ári þegar hann áttaði sig á því að brátt hefðu hundrað ár liðið frá því Jón úr Vör fæddist. »Þá hrökk ég við og hugsaði með mér: einhver þarf að gefa út ljóðin hans og síðan: það er best að það verði ég og þar með var ég farinn af stað.« Í inngangi bókarinnar rifjar Aðalsteinn það upp að hann hafi reyndar orðað það við Jón fyrir tuttugu árum að löngu tímabært væri að ljóð hans yrðu gefin út í heildarútgáfu, en Jón var þá efins um að nokkur hefði áhuga á því.
Alls sendi Jón frá sér þrettán ljóðabækur og eitt ljóðasafn kom út á meðan hann lifði, en sumar bækurnar voru gefnar út oftar en einu sinni og jafnvel í breyttum útgáfum.
Bækurnar eru:
Ég ber að dyrum sem kom út 1937, Stund milli stríða 1942, Þorpið 1946, Með hljóðstaf 1951, Með örvalausum boga 1951, Vetrarmávar 1960, Maurildaskógur 1965, Mjallhvítarkistan 1968, Vinarhús 1972, 1978, Regnbogastígur 1981 og Gott er að lifa 1984. Ljóðasafnið 100 kvæði kom út 1967.
Í heildarsafninu eru ljóðin úr ljóðabókunum þrettán, en einnig eitt æskuljóð og eitt ljóð sem kom út eftir að síðasta bók Jóns kom út. Einnig fljóta nokkrar ljóðaþýðingar með.
- Skáldatími Jóns spannar býsna vítt svið, allt frá því hann gefur út sína fyrstu bók með hefðbundnum ljóðum þar til hann gerist byltingarmaður í formi.
»Hann var umdeildur um tíma og það tók okkur Íslendinga dálítinn tíma að taka hann í sátt. Hann braut blað í íslenskri ljóðagerð og það er líka merkilegt að þegar litið er yfir ljóðsafn hans sést hvað hann hélt sínu striki þrátt fyrir mótbyr, var sjálfum sér trúr. Á tímabili fékk hann harkalega og stuðandi gagnrýni sem hann tók auðvitað nærri sér þó að hann bæri sig vel, en engu að síður stendur hann uppréttur og löngu seinna sjá menn að þetta var ekki réttmæt gagnrýni. Meðal annars þess vegna fannst mér svo mikilvægt að það væri til heildarsafn svo fólk gæti séð hvað það er sterkur þráður í æviverki Jóns.«
- Hann hafði samt ekki yfirbragð byltingarmannsins, rak fyrirtæki og stundaði kaupsýslu, hinn dæmigerði smáborgari.
»Frekar hinn dæmigerði íslenski bóndi sem gat séð fyrir sér með því að hugsa vel um sitt bú. Hann kunni ýmislegt fyrir sér og það er gaman að skoða ævi hans, sjá hvernig hann hélt sínu striki í ljóðgerð og nýtti sér aðra hæfileika til að lifa af og gerði það vel, þurfti aldrei að barma sér.«
- Hann var byltingarmaður í formi, en í eina tíð var honum líka skipað í hóp sósíalískra skálda.
»Jón var svo mikill alþýðumaður alla tíð og trúr uppruna sínum og hélt í það. Að því leyti var hann ólíkur öðrum skáldum vegna þess að hann reyndi aldrei að hefja sig upp fyrir það, heimsmynd hans var svo flott. Hann kom náttúrlega heim frá námi í útlöndum með nýjungar í ljóðagerð, en hann gerði líka ákveðna byltingu í ljóðunum sem aðrir gerðu ekki. Hann bylti forminu til dæmis miklu meira en Steinn Steinarr gerði.«
Morgunblaðið laugardagurinn 21. janúar 2017.
Árni Matthíasson.