A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
01.03.2015 - 10:03 | Morgunblaðið,BIB

Alþjóðlegi hrósdagurinn - 1. mars

Ingrid Kuhlman - tengdadóttir Vestfjarða.
Ingrid Kuhlman - tengdadóttir Vestfjarða.
« 1 af 2 »

Sunnudaginn 1. mars verður er alþjóðlegi hrósdagurinn haldinn hátíðlegur. Okkur Íslendingum er ekki gjarnt að hrósa. Það hefur ekki verið hluti af þjóðarsálinni - í gamla daga var því jafnvel haldið fram að ekki væri ráðlegt að hrósa börnunum því þau yrðu bara montin. Maður átti að vera lítillátur, ljúfur og kátur og láta ekki mikið bera á sér.
Oft eigum við erfitt með að taka hrósi. Við skiptum um umræðuefni eða verðum vandræðaleg. Eða við gerum lítið úr hrósinu með því að segja hluti eins og: „Ég gerði nú ekki mikið, þetta er bara hluti af mínu starfi“, eða „Æ, þetta er bara gömul drusla sem ég keypti í útsölunni fyrir nokkrum árum.“ Sumir virðast efast um ásetning þess sem hrósar með því að spyrja: „Vantar þig eitthvað?“. Þegar við bregðumst svona við gerum við lítið úr þeim sem hrósar okkur. Hrós ætti að færa okkur þá upplifun að við séum einstök og laða fram bros. Það ætti jafnframt að færa þeim sem hrósar okkur tilfinninguna að við kunnum að meta hrósið.


Hér fyrir neðan eru nokkur ráð til að taka hrósi :

  • Mikilvægt er að gangast við hrósinu og sýna þakklæti. Orðin „Takk fyrir“ eða „Virkilega gaman að heyra“ skipta miklu máli og gefa þeim sem hrósar tilfinninguna að þú hafir tekið við hrósinu og kunnir að meta það.
  • Æfðu þig í að segja „Takk fyrir“ með brosi á vör, t.d. fyrir framan spegilinn.
  • Haltu augnsambandi þegar þér er hrósað.
  • Forðastu að skipta um umræðuefnið þegar þú færð hrós; það gæti virkað sem ókurteisi.
  • Ekki þræta við þann sem hrósar þér um réttmæti hróssins („Æ, ég hef aldrei fílað þessa peysu“) eða bera þig saman við aðra („Sigga er nú miklu færari en ég“). Þannig eykur þú ekki líkurnar á að fá hrós í framtíðinni.
  • Láttu ekki freistast til að monta þig af eigin frammistöðu eftir að þú hefur tekið við hrósinu.
  • Ekki vanmeta sjálfa(n) þig með því að koma með neikvæða athugasemd þegar þú færð hrós fyrir góða frammistöðu.
  • Ekki er nauðsynlegt að endurgjalda með hrósi nema ef þér finnist viðkomandi eiga það skilið.
  • Líttu á hrós sem æfingu í sjálfsstyrk. Einstaklingur með sjálfstraust veit hvers virði hann er og metur þá viðurkenningu sem hann fær, en hvorki leitar hana uppi né hafnar henni. Áræðin viðbrögð sýna að þú ert hróssins verð(ur).
  • Komdu hrósinu áleiðis til þeirra sem eiga skilið að fá það en voru ekki viðstödd þegar hrósið var veitt.

Það er fátt sem yljar manni eins um hjartarætur og einlægt hrós. Allir hafa efni á að hrósa og allir græða á því. Það er ekkert sem gleður meira, gefur meiri orku og gerir fólk ánægðara en hrós sem er sett fram af einlægni. Hrósum makanum, börnum okkar, foreldrum, samstarfsfélögum, systkinum, frænkum og frændum og öllum sem við þekkjum og gerum 1. mars að jákvæðasta degi ársins.


Ingrid Kuhlman

 

Birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2015. 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31